Innlent

Þau leiða Vinstri græn í Norðvesturkjördæmi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Álfhildur, Bjarki og Sigríður skipa efstu þrjú sætin í Norðvesturkjördæmi. 
Álfhildur, Bjarki og Sigríður skipa efstu þrjú sætin í Norðvesturkjördæmi.  Vinstri græn

Uppstillinganefnd Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi hefur kynnt framboðslista fyrir komandi Alþingiskosningarnar. Listann leiðir Álfhildur Leifsdóttir, oddviti VG í Skagafirði. Bjarki Hjörleifsson frá Stykkishólmi er í öðru sæti og Ísfirðingurinn Sigríður Gísladóttir í þriðja.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flokknum, þar sem segir að listinn sé heimabakaður að þessu sinni. Bjarni Jónsson var oddviti listans á síðasta kjörtímabili en tilkynnti í síðustu viku að hann hefði sagt sig úr flokknum og sagt skilið við þingflokkinn. 

 Eftirfarandi kemur fram í umfjöllun um frambjóðendurna þrjá. 

Álfhildur Leifsdóttir starfar sem grunnskólakennari og er kerfisfræðingur að mennt. Hún er formaður Kennarasambands Norðurlands vestra. Álfhildur hefur setið í sveitarstjórn Skagafjarðar síðastliðin sex ár. Hún er formaður sveitarstjórnarráðs Skagafjarðar og stjórnarmaður í stjórn VG.

Bjarki Hjörleifsson, stjórnmálafræðingur frá Stykkishólmi, skipar annað sætið á lista VG í Norðvestur. Bjarki hefur unnið fyrir VG síðan 2019, fyrst á skrifstofu flokksins, svo hjá þingflokknum og síðast sem aðstoðarmaður Bjarkeyjar Olsen matvælaráðherra.

Ísfirðingurinn Sigríður Gísladóttir skipar þriðja sæti listans. Sigríður er dýralæknir, framhaldsskólakennari og búfræðingur. Hún kennir við Menntaskólann á Ísafirði. Hún er í stjórn Bjargráðasjóðs og varastjórn Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Sigríður hefur starfað með lengi með VG, bæði fyrir landsmálin og sveitarstjórnir og var formaður svæðisfélags VG á Vestfjörðum í tæpan áratug.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×