Körfubolti

Busaði soninn í nýrri aug­lýsingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og sonur hans Bronny James sjást hér í sjónvarpsviðtali eftir sögulegan leik þeirra með Los Angeles Lakers.
LeBron James og sonur hans Bronny James sjást hér í sjónvarpsviðtali eftir sögulegan leik þeirra með Los Angeles Lakers. Getty/Harry How/

LeBron James og sonur hans Bronny skrifuðu nýjan kafla í sögu NBA deildarinnar í fyrsta leik nýja tímabilsins. Skemmtilegt auglýsing feðganna vakti líka lukku.

Los Angeles Lakers valdi Bronny í nýliðvalinu í sumar og feðgarnir spiluðu báðir í sigurleik á móti Minnesota Timberwolves á þriðjudagskvöldið.

Þeir urðu þar með fyrstu feðgarnir til að spila saman í NBA. Þeir komu meira að segja inn á völlinn á sama tíma í öðrum leikhluta en LeBron hafði þá þegar tekið þátt í leiknum í fyrsta leikhlutanum.

LeBron talaði um það eftir leikinn að þetta væri stund sem hann myndi aldrei gleyma.

„Sama hversu gamall ég verð, sama hversu gleyminn ég verð orðinn þegar ég eldist, þá mun ég aldrei gleyma þessari stund,“ sagði LeBron James eftir leikinn.

LeBron endaði leikinn með 16 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar á 35 mínútum en sonurinn spilaði bara í þrjár mínútur og tókst ekki að skora. Bronny klikkaði á báðum skotum sínum en tók eitt frákast.

Í aðdraganda leiksins mátti sjá skemmtilega Nike auglýsingu með þeim feðgum. Þar tekur LeBron James sig til og busar soninn eins og sjá má hér fyrir neðan.

Hann fyllti bíl sonarins af morgunkorni og skildi hann síðan eftir í slæmum málum þegar styttist í æfingu hjá Lakers liðinu. „Hey nýliði! Það er eins gott að þú verðir ekki seinn,“ kallaði LeBron svo á Bronny af miklum prakkaraskap.

Það má sjá auglýsinguna hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×