Átta af bestu pílukösturum landsins voru mættir á Selfoss í gærkvöldi, en keppt var í útsláttarkeppni þar sem sá sem var fyrri til að vinna fjóra leggi komst áfram.
Dilyan hafði betur gegn Birni Steinari Brynjólfssyni í fyrstu umferð, 4-1, áður en hann vann 4-2 sigur gegn Lukasz Knapik í undanúrslitum.
Í úrslitunum lenti Dilyan í nokkrum vandræðum gegn Kristjáni Sigurðssyni og lenti 3-1 undir. Kristjáni tókst hins vegar ekki að nýta útskotin sín og Dilyan kláraði að lokum leikinn með því að taka út 110 á tvöföldum 15.
Síðasta útskot Dilyans og viðtal við kappann eftir sigurinn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Með sigrinum tyllir Kolev sér á toppinn á deildinni eftir þetta fyrsta kvöld en sigurvegari hvers kvölds fær fimm stig, 2. sætið fær þrjú stig og þeir sem tapa í undanúrslitum fá tvö stig.
Úrvalsdeildin heldur áfram í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport næstu sex laugardagskvöld en 2. umferð fer fram á Bullseye Reykjavík laugardagskvöldið 2. nóvember kl. 19:30.