Þetta var fyrsti landsleikur Cecilíu síðan í júlí 2023 en hún hefur verið afar óheppin með meiðsli síðustu ár. Nú er hún farin að spila reglulega með Internazionale á Ítalíu og byrjaði inn á í landsliðinu í gær.
Markvörðurinn var þó ekki sátt með 3-1 tap.
Gefur ekki rétta mynd
„Þetta er bara hundfúlt. Við bjuggumst kannski ekki við því, fyrir þetta verkefni, að vera fúlar með því að tapa 3-1, en við erum hundfúlar með því að tapa báðum leikjum 3-1. Það gefur ekki rétta mynd af þessum leikjum,“ sagði Cecilía Rán.
Úrslitin voru svekkjandi en frammistaða leikmanna liðsins í leikjunum var þó eitthvað til að gleðjast yfir.
„Já við erum ótrúlega sáttar. Við töluðum um það eftir síðasta leik að við værum ótrúlegar sáttar og vildum halda því áfram í þessum leik. Mér fannst við geta gengið sáttar frá borði en auðvitað er hundfúlt að hafa tapað,“ sagði Cecilía.
„Þetta er samt bara æfingarleikur, þannig að tap eða sigur gefur ekkert,“ sagði Cecilía. Hún hrósar varnarleik liðsins.
Við erum að verjast mjög vel
„Við erum að verjast mjög vel, frá fremsta manni til þess aftasta. Þetta er varnarleikurinn sem við stöndum fyrir og við erum að gera þetta mjög vel,“ sagði Cecilía.
Hvernig var tilfinningin fyrir Cecilía að koma aftur inn í landsliðið og spila sinn fyrsta landsleik í svo langan tíma?
„Það var bara geðveikt. Það var geðveikt að koma aftur inn í hópinn í júní en ennþá sætara að fá loksins að spila,“ sagði Cecilía.