Enski boltinn

Åge vill sjá sam­landa sinn Sol­skjær taka við Man Utd á nýjan leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær og Åge Hareide eru báðir frá Noregi.
Ole Gunnar Solskjær og Åge Hareide eru báðir frá Noregi. Getty Images/Vísir

Norðmaðurinn Åge Hareide, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, vill sjá samlanda sinn Ole Gunnar Solskjær taka við þjálfun Manchester United á nýjan leik eftir að Erik ten Hag var látinn fjúka.

Man United greindi frá því fyrr í gær, sunnudag, að Erik ten Hag væri ekki lengur þjálfari liðsins en liðið hefur byrjað tímabilið hreint út sagt skelfilega.

Síðan þá hefur fjöldi þjálfara verið orðaður við starfið en landsliðsþjálfari Íslands segir Solskjær rétta manninn í starfið á þessum tímapunkti. Hann stýrði liðinu frá síðla árs 2018 þangað til í nóvember 2021. Einnig spilaði Solskjær fyrir Man United nær allan sinn feril.

„Hann er félagsmaður. Allir þekkja hann. Hann er ofarlega á listanum yfir þá þjálfara sem hafa stýrt liðinu síðan Sir Alex Ferguson steig til hliðar,“ sagði Åge í viðtali við norska miðilinn NRK.

„Þetta er eitt erfiðasta starf í heimi þegar kemur að pressu. Það var ekki svo slæmt þegar hann var þar síðast en líklega var United aðeins of óþolinmótt,“ bætti Åge við.

Man United endaði í 2. sæti með Solskjær sem þjálfara og komst í úrslit Evrópudeildarinnar, Liðinu tókst þó ekki að vinna bikar fyrr en Ten Hag tók við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×