Enski boltinn

Segir Arteta líkari Mourin­ho en Guar­diola

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikel Arteta á hliðarlínunni um helgina.
Mikel Arteta á hliðarlínunni um helgina. EPA-EFE/NEIL HALL

Jamie Carragher, fyrrverandi varnarmaður Liverpool og núverandi sparkspekingur fyrir Sky Sports, gagnrýndi Mikel Arteta og leikaðferð hans í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Þar gerði Arsenal 2-2 jafntefli við Liverpool á heimavelli en gestirnir jöfnuðu á 81. mínútu leiksins.

Arteta hefur verið gagnrýndur fyrir að vera of varnarsinnaður í sinni nálgun. Það var hins vegar næstum búið að skila Arsenal titlinum á síðustu leiktíð og í vetur hefur Spánverjinn því haldið sig við það upplegg.

„Af því Arteta starfaði með Pep Guardiola töldum við hann vera lærisvein Pep. Ef maður horfir þá tvo þjálfara sem hafa náð hvað mestum árangri á síðustu 10-15 árum þá er Guardiola og hans leikstíll á einum enda og svo erum við með José Mourinho á hinum endanum.“

„Mikel Arteta er hægt og rólega að breytast í Mourinho-týpu af þjálfara. Eitthvað sem engin taldi að myndi gerast. Mér finnst virkilega áhugavert að skoða hvernig hann komst þangað.“

„Við sjáum um helgina að Arsenal er 2-1 yfir gegn Liverpool og að pressa ofarlega á vellinum. Arsenal er að spila virkilega vel í síðari hálfleik fellur liðið til baka. Ég veit að það vantaði lykilmenn í varnarlínuna vegna meiðsla en þeir eru enn með miðjuna og framlínuna sína.“

Aðspurður hvort hann telji það vera viljandi að Arsenal falli til baka til að verja fenginn hlut þá játti Carragher því.

„Þetta kemur frá þjálfaranum og við sjáum þetta of oft,“ bætti Liverpool-maðurinn fyrrverandi við og nefndi leiki Arsenal gegn Bournemouth og Brighton & Hove Albion sem dæmi.

Arsenal hefur aðeins unnið tvo af síðustu fimm leikjum sínum og er með 18 stig í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fimm minna en topplið Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×