Íslenski boltinn

Fót­bolta­mamma Ís­lands í vanda: „Verð að halda með þeim báðum og hvernig fer ég að því?“

Aron Guðmundsson skrifar
Hanna Símonardóttir er stolt af strákunum sínum í boltanum sem náðu báðir frábærum árangri á nýafstöðnu tímabili
Hanna Símonardóttir er stolt af strákunum sínum í boltanum sem náðu báðir frábærum árangri á nýafstöðnu tímabili Vísir/Samsett mynd

Í kjöl­far góðs árangurs á ný­af­stöðnu tíma­bili er ljóst að bræðurnir Magnús Már og Anton Ari Einars­synir munu mætast í Bestu deildinni í fót­bolta á næsta tíma­bili. Staða sem setur fjöl­skyldu þeirra í erfiða stöðu. „Þetta verður mjög skrítið. Ég verð að halda með þeim báðum og hvernig fer ég að því?“ segir Hanna Símonar­dóttir móðir þeirra.

Hanna hefur haft ríka á­stæðu til að fagna góðu gengi sona sinna á ný­af­stöðnu fót­bolta­tíma­bili. Elsti sonur hennar, Magnús Már Einars­son, stýrði liði Aftur­eldingar í fyrsta sinn upp í efstu deild og um síðast­liðna helgi varð Anton Ari, mark­vörður Breiða­bliks og annar af fjórum börnum Hönnu og Einars Þórs Magnússonar, Ís­lands­meistari í fjórða sinn á ferlinum þegar að Breiða­blik lagði Víking Reykja­vík í hreinum úr­slita­leik um Ís­lands­meistara­titilinn. Hanna er stolt af sínum strákum.

„Stolt en fyrst og fremst þakk­lát. Þakk­lát fyrir að þeir hafi nýtt öll sín tæki­færi til þess að komast á þann stað sem þeir eru komnir á. Það vegur þyngra hjá mér. Satt best að segja finnst mér svo vega enn þyngra þakk­læti fyrir það hversu heil­steyptar og góðar mann­eskjur þeir eru.

Þeir taka þetta al­gjör­lega utan vallarins líka. Ég á fjögur börn og öll eru þau góðar mann­eskjur og til fyrir­myndar. Þeim gengur öllum vel og öll hafa þau gripið sín tæki­færi til þess að komast á þann stað sem þau vilja fara á.“

Fréttin heldur áfram eftir myndbandið hér að neðan.

Stærsta fótboltasumarið til þessa

Af þeim mörgu fót­bolta­tíma­bilum sem Hanna og fjöl­skylda hafa farið í gegnum gæti reynst erfitt að toppa ný­af­staðið tíma­bil.

„Já, klár­lega. Aftur­elding fer upp í efstu deild. Það er svo stórt hjá þeim. Anton Ari hefur orðið Ís­lands­meistari áður en þetta var vissu­lega skemmti­legasti titilinn hjá honum út af þessum úr­slita­leik sem þeir þurftu að spila við Víkingana. Hann hafði ekki gengið í gegnum það áður þó svo að hann hafi fyrir það orðið Ís­lands­meistari í þrí­gang. Nú var þetta hreinn úr­slita­leikur og öll dramatíkin sem að því fylgdi. Ó­trú­legt. Og að fara svo með Aftur­eldingu upp í efstu deild. Þetta er stærsta fót­bolta­sumarið í mínu lífi þótt ég sé ekki leik­maður.“

Fæddist með þráhyggju fyrir fótbolta

Hanna hefur verið sjálf­boða­liði hjá Aftur­eldingu í um þrjá­tíu ár eða allt frá því að frum­burðurinn Magnús Már, sem Hanna lýsir sem ein­stak­lingi með þrá­hyggju fyrir fót­bolta, hóf að æfa fót­bolta með Aftur­eldingu.

„Ég hef svo sem alltaf haft á­huga á fót­bolta. Svo eignast maður börn og þá breytast oft línurnar í lífinu en það gerðu þær ekki hjá mér því Magnús fæddist með þrá­hyggju fyrir fót­bolta. Gjör­sam­lega. Hann var mjög virkur og aktívur krakki. Þurfti mikið að hreyfa sig. Um leið og hann gat byrjað að æfa fót­bolta þá fylgdi því léttir á heimilinu því þá gat Magnús fengið sína út­rás. Svo heldur þetta á­fram og þróast út í það að hann er að gera meira en bara að æfa fót­bolta.“

Magnús Már hefur náð frábærum árangri sem þjálfari uppeldisfélags síns Aftureldingu.Vísir/Anton Brink

„Hann er með ó­þrjótandi á­huga á að fræðast og vita meira um fót­bolta. Eins og margir vita þá vann hann við það í hátt í tuttugu ár að skrifa um fót­bolta og hann er ekki nema rétt rúm­lega þrí­tugur í dag. Fót­boltinn hefur verið hans þrá­hyggja og ég viður­kenni að ég leiddist með honum út í það. Þetta er hálf­gerð þrá­hyggja hjá mér líka og ég hef stússast í kringum boltann í sjálf­boða­liða­starfi sem tekur mjög stóran hluta af mínu dag­lega lífi.“

Hamingjan sterkari en stressið

Og Hanna hefur mikla ást­ríðu fyrir því að gefa af sér til Aftur­eldingar í gegnum sjálf­boða­liða­starfið.

„Um leið og Magnús byrjar að æfa þá sé ég að þetta er það sem þarf. Þó svo að Magnús hafi bara verið sex ára gamall þá er ég byrjuð að hjálpa til í kringum meistara­flokka fé­lagsins því ég sá að þangað myndi hans leið liggja og síðar syst­kina hans ef þau hefðu á­huga á því. Ég sá að strax væri það bara kostur að hjálpa til við allt. Ég hef ekki tölu á vinnu­stunda fjöldanum en þetta eru þrjá­tíu ár sem maður hefur verið all-in sem sjálf­boða­liði hjá Aftur­eldingu.“

Hanna Símonardóttir er með þráhyggju fyrir fótbolta líkt og sonur sinn, Magnús Már EinarssonVísir/Sigurjón Ólason

Hjá fé­laginu slær hjarta fjöl­skyldunnar. Það var því sér­stök stund að sjá liðið inn­sigla Bestu deildar sætið á Laugar­dals­velli og við­eig­andi að Hanna skildi rétta fyrir­liða Aftur­eldingar bikarinn á þjóðar­leik­vanginum en þetta var annað árið í röð sem liðið komst alla leið í úr­slita­leikinn um Bestu deildar sætið. Á síðasta ári laut liðið í lægra haldi en í ár stóð það uppi sem sigur­vegari. Ó­lýsan­leg til­finning sem fylgdi því að horfa upp á það að sögn Hönnu.

„Ég hafði mjög mikla trú en samt ein­hvern veginn er þetta svo stórt þegar að loka­flautið er komið og þetta er klárt. Og eftir von­brigðin í fyrra þá var þægi­legra að vera þarna í ár hafandi farið í gegnum þetta áður. En stuðningurinn, frá bæjar­búum og stuðnings­fólkinu, var svo mikill bæði árin. Að sjá og finna stuðninginn var svo risa­stórt. Að sjá svo liðið klára þetta. Það er ekki hægt að lýsa til­finningunni. Þetta var geggjað.“

Afturelding bar sigur úr býtum gegn Keflavík í úrslitaleik í umspili Lengjudeildarinnar og tryggði sér þar með sæti í Bestu deildinni á næsta ári.Vísir/Anton Brink

Það fylgdi því þó ekki meira stress að fylgjast með Aftur­eldingu í leiknum sökum þeirrar stað­reyndar að þjálfari liðsins er sonur hennar.

„Nei, ekki meira stressandi en ég held samt að gleðin og hamingjan yfir sigrinum hafi verið sterkari fyrir vikið. Ég veit að Magnús er að gera gjör­sam­lega sitt besta og mikið meira en það. Hann lagði allt í þetta. Ég vissi það. Þá er ekkert stress þótt að hann sé sonur minn. Ég vissi að hann væri að gera sitt besta en hamingjan var sterkari. Ég held ég geti alveg full­yrt það.“

Enn buguð og ómöguleg

Ár stórra sigra en einnig ár mikillar sorgar og bar­áttu fyrir Hönnu og hennar fjöl­skyldu en eins og fjallað hefur verið um áður tóku Hanna og Einar að sér að verða fóstur­for­eldrar tveggja drengja, Yazan Kaware og Sam­eer Omran, sem flúðu hörmungar­á­stand í Palestínu og fengu sam­þykkta vernd hér á landi í janúar í upp­hafi árs. En eldri frænda þeirra, sem kom með Yazan og Sameer hingað til lands, var vísað úr landi. Drengirnir hafa nú sam­einast fjöl­skyldu sinni hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar og njóta áfram stuðnings og góðvildar Hönnu og fjölskyldu.

„Þetta var ó­trú­legt, mjög gaman. Eftir erfiðasta ár lífs míns að öðru leiti. Að hafa haft flótta­barn frá Palestínu í fóstri á meðan að fjöl­skylda hans var í stór­hættu risa­stóran hluta af árinu. Þá eru verð­launin á fót­bolta­vellinum svo stór eftir það.

Þetta eru tvær svaka­legar and­stæður sem takast þarna á.

„Já, rosa­lega. Og enn er ég bara buguð og ó­mögu­leg vegna ör­laga svo margra úr fjöl­skyldu drengjanna. Mun ekkert geta hætt því og verð aldrei sama manneskjan eftir að hafa staðið í þessari bar­áttu með þeim, og er enn að því. Það er svo skrítið að vera fagna svona svaka­lega miklum og góðum árangri hjá börnunum sínum á sama tíma. Það er mjög skrítið.“

Einn markvörður í hverri fjölskyldu er nóg

Hanna reynir að mæta á alla leiki hjá sínum mönnum og að sjálf­sögðu var hún mætt með stuðnings­mönnum Breiða­bliks á úr­slita­leikinn sjálfan um Ís­lands­meistara­titilinn á Víkings­velli um síðast­liðna helgi þar sem að Anton Ari stóð í markinu.

„Það var líka bara ó­trú­legt. Að sjá hvernig Blikarnir mættu til leiks. Það gerði það að verkum að snemma leiks hafði maður góða trú á því að þeir myndu klára þetta og ég hafði það svo sem fyrir leik líka. Þetta var bara frá­bær kvöld­stund undir ljósunum í Hamingjunni.“

Leiknum lauk með 3-0 öruggum sigri Breiða­bliks. Ís­lands­meistara­titilinn í höfn. Sá fjórði á ferli Antons Ara sem fékk gull­hanskann að leik loknum. Verð­laun sem veitt eru þeim mark­verði sem oftast hélt marki sínu hreinu yfir tíma­bilið.

Anton Ari Einarsson tekur við gullhanskanum.vísir / anton brink

Virki­lega sterkt hjá Antoni og kannski sér í lagi í því ljósi að tíma­bilið áður mátti hann þola mikla gagn­rýni fyrir frammi­stöðu sína.

„Það var náttúru­lega bara ó­trú­lega erfitt að horfa upp á það hvernig sumarið í fyrra þróaðist,“ segir Hanna. „Auð­vitað er það bara ó­trú­lega erfitt fyrir okkur öll sem þykir vænt um hann og stöndum nærri honum. Að sjálf­sögðu. Hann hafði þarna nýlega eignast tvíbura með unnustu sinni svo það var mikið álag á honum utan vallar líka og kannski ekki margir sem að settu það í sam­hengi en ég gerði það. Þótt við hefðum reynt að gera allt sem við gátum til að hjálpa þeim með það verk­efni þá er þetta auð­vitað eitt­hvað sem hefur á­hrif. Svo getur maður bara rétt í­myndað sér með mark­verði, þegar að tíma­bilið byrjaði eins og það gerði í fyrra, að það sé erfitt að snúa því við.

Þegar að ný­af­staðið tíma­bil byrjaði svo eins og það gerði þá léttir manni bara rosa­lega. Því maður finnur og sér að hann sjálfur er búinn að finna sinn gamla takt og það varð engin breyting á því eftir því sem að leið á tíma­bilið.“

Anton Ari Einarsson markvörður Blika.Vísir/Pawel

Hanna hefur reynslu af því að eiga barn sem æfir og spilar fót­bolta sem úti­leik­maður, en einnig reynslu af því að eiga barn sem er mark­vörður. Hún segir það síðar­nefnda meira krefjandi.

„Það er það. Það er nóg að eiga einn markvörð í hverri fjölskyldu. Það er allt öðru­vísi en að eiga úti­leik­mann. Ef það er erfitt hjá þeim, eða þeir gera mis­tök, þá eru þeir í hakkavélinni á meðan að úti­leik­menn fá miklu meira frelsi til að gera mis­tök. Eðli­lega er það þannig. En ég viður­kenni það alveg að þetta er tvennt ó­líkt.“

Búin að gera plan

Hanna og fjöl­skylda geta leyft sér að fagna en fram undan er hins vegar tími mikillar tog­streitu. Aftur­elding og Breiða­blik bæði í bestu deildinni og munu mætast á næsta tíma­bili. Anton Ari í markinu hjá Breiða­bliki og Magnús Már á hliðar­línunni að stýra sínum mönnum í Aftur­eldingu. Sviðs­mynd sem verður æ raun­veru­legri eftir því sem vikurnar líða.

Ég nefni­lega gat ýtt þessu frá mér. Aftur­elding fór upp og ég er búinn að vera fagna því síðan sem slíku. Ég hugsaði það ekkert að þeir væru að fara mætast. Ég hef marg­oft verið spurð en tókst að ýta því frá mér. En svo þegar að Blikarnir voru búnir að klára sitt núna og maður er þannig séð komin í frí frá boltanum þá skellur þetta á mér. Þetta verður mjög skrítið. Ég verð að halda með þeim báðum og hvernig fer ég að því?“

Magnús Már, þjálfari Aftureldingar og bróðir hans Anton Ari, markvörður Breiðabliks, mætast í Bestu deildinni á næsta tímabiliVísir/Samsett mynd

Að­spurð hvort að hún myndi ekki bara reyna að fá Anton Ara heim í Aftur­eldingu til þess að leysa þessa tog­streitu var Hanna mjög skýr í svörum:

„Ég sé ekkert um leik­manna­málin hjá Aftur­eldingu og hef ekkert hugsað út í það.“

Hún á þá draum­sýn fyrir næsta tíma­bil í tengslum við lið drengja sinna.

„Ég er búin að gera plan. Inn­byrðis­leikirnir þrír fara 0-0. Svo vinna bæði liðin alla hina leikina sína og þá verður bara spennandi að sjá um haustið hver marka­talan verður. Hvort liðið verður ofar. Ég ætla bara að hafa minn draum svona fyrir næsta sumar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×