Enski boltinn

Mourinho var bara að segja brandara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho er ekki bara að hrauna yfir mann og annan í viðtölum eftir súr úrslit. Hann segir stundum líka brandara.
Jose Mourinho er ekki bara að hrauna yfir mann og annan í viðtölum eftir súr úrslit. Hann segir stundum líka brandara. Getty/Ali Atmaca/

Jose Mourinho heldur því fram að hann fái ekki sanngjarna meðferð hjá Knattspyrnusambandi UEFA. Mourinho fékk rauða spjaldið í síðasta Evrópuleiknum sínum sem var á móti hans gömlu lærisveinum í Manchester United.

Mourinho telur að hann þurfi að þola þetta óréttlæti af hálfu evrópska sambandsins síðan að hann hraunaði yfir Anthony Taylor eftir úrslitaleik Evrópudeildarinnar 2023. Mourinho var í framhaldinu dæmdur í fjögurra leikja bann enda fór hann langt yfir strikið.

„Mín tilfinning er sú að ég sé í vandræðum í Evrópu. Ég tapaði þessum úrslitaleik á þann hátt að ég hef enn ekki sætt mig við það tap. En ég hef líka fundið fyrir því síðan,“ sagði Mourinho við Sky Sports.

„Ég vil ekki fá sérstaka meðferð. Ég vil fá heiðarlega meðferð. Bara það. Ef ég geri eitthvað rangt, refsið mér, en ef ég geri ekkert rangt, látið mig i friði. Það er hins vegar farið að verða mjög erfitt,“ sagði Mourinho.

Portúgalski stjórinn ræddi líka ummæli sín eftir Manchester United leikinn á dögunum. Þau vöktu vissulega talsverða athygli. Hann sagðist þá vilja stýra ensku liði sem tæki ekki þátt í Evrópukeppni.

„Ég sagði bara brandara. Ég fer aldrei til liðs sem er í fallbaráttu. Það mun aldrei gerast,“ sagði Mourinho.

„Ég yrði svo fúll og leiður og ég er ekki á þeim stað á ferlinum til að standa í slíku. Ég er á þeim stað á ferlinum þar sem ég vil upplifa ánægju allan tímann og fá tækifæri til að taka þátt í Evrópukeppnum,“ sagði Mourinho.

„Ég ætla ekki að fara í fallbaráttu. Það er svo erfitt. Í hreinskilni sagt þá hlýtur það vera það erfiðasta. Það er miklu erfiðara en að spila um titlana,“ sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×