Sport

Raygun skorar á fjand­menn sína í dans­keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raygun sést hér í breikdanskeppninni á Ólympíuleikunum í París í sumar.
Raygun sést hér í breikdanskeppninni á Ólympíuleikunum í París í sumar. Getty/Ezra Shaw

Ástralski breikdansarinn Rachael Gunn, betur þekkt sem „Raygun“, hefur snúið vörn í sókn gegn nettröllunum sem herjuðu á hana eftir eftirminnilegan dans hennar á Ólympíuleikunum í París.

"Raygun" sló í gegn á leikunum í París í síðasta mánuði þrátt fyrir að enda í síðasta sæti í keppninni.

Sérstök tilþrif hennar og óvenjulegur breikdans fór á mikið flug á samfélagsmiðlum og eftir leikana vissu miklu fleiri hver Raygun var heldur en þær konur sem unnu til verðlauna á leikunum.

Sporin, sem hún bauð upp í París, hafa verið endalaus uppspretta gríns á netinu og þótti sumum nóg um. Internetið fékk í það minnsta ekki nóg af Raygun en grínið var þó oft rætið.

Hún sagði seinna frá miklu áreiti sem hún þurfti að þola þar sem var meðal annars haldið fram að hún hafi svindlað sér inn á leikana.

Nú ætlar hún að gefa fjandmönnum sínum tækifæri til að standa við stóru orðin og fá um leið tækifæri til að vinna sér inn pening.

Raygun hefur sett á laggirnar danskeppni þar sem sigurvegarinn fær fimm þúsund dollara og besta danshópurinn fær tíu þúsund dollara. Það eru 688 þúsund krónur í boði fyrir einstaklinga og 1,3 milljónir fyrir danshópana.

„Ég hef heyrt frá sumum ykkar að þið þykist geta gert betur en ég. Virkilega? Nú skulum við komast að því,“ sagði Raygun í auglýsingunni fyrir keppnina en hana má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×