Körfubolti

LeBron stoltur af stráknum eftir fyrstu stigin hans í NBA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bronny James skoraði fyrstu stigin sín í NBA í nótt.
Bronny James skoraði fyrstu stigin sín í NBA í nótt. getty/Jason Miller

Bronny James, sonur LeBrons, er kominn á blað í NBA. Hann skoraði sín fyrstu stig í deildinni þegar Los Angeles Lakers tapaði fyrir gamla liði pabba hans, Cleveland Cavaliers, 134-110.

Í síðustu viku brutu LeBron og Bronny blað í sögu NBA þegar þeir urðu fyrstu feðgarnar til að spila saman í deildinni. Þeir komu þá við sögu í sjö stiga sigri Lakers á Minnesota Timberwolves, 110-103.

Bronny hafði ekkert spilað fyrir Lakers frá fyrsta leik tímabils en hann kom inn á þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum í nótt. Og hann skoraði sín fyrstu stig í NBA þegar hann setti niður stökkskot.

„Að sjá hann skora sína fyrstu körfu í NBA á þessum stað, rétt hjá þar sem hann ólst upp, var ótrúlegt,“ sagði LeBron sem er frá Cleveland og lék með Cavs á árunum 2003-10 og 2014-18. Hann varð meistari með liðinu 2016.

Bronny spilaði í fimm mínútur í leiknum í nótt; skoraði tvö stig og gaf tvær stoðsendingar. Pabbi hans var stigahæstur í liði Lakers með 26 stig. Hann tók einnig sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Lakers hefur unnið þrjá af fyrstu fimm leikjum sínum á tímabilinu. Liðið er á sínu fyrsta tímabili undir stjórn JJ Redicks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×