Körfubolti

Popovich frá um ó­á­kveðinn tíma vegna veikinda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gregg Popovich er orðinn 75 ára gamall en hann hefur þjálfað San Antonio Spurs frá árinu 1996.
Gregg Popovich er orðinn 75 ára gamall en hann hefur þjálfað San Antonio Spurs frá árinu 1996. Getty/Ronald Cortes

Gregg Popovich, þjálfari San Antonio Spurs, mun ekki stýra liðinu á næstunni eftir að hann veiktist skyndilega fyrir leik liðsins um helgina.

Aðstoðarmaður hans Mitch Johnson mun taka við aðalþjálfarastöðunni á meðan og hann stýrði liðinu í tapleik á móti Los Angeles Clippers í nótt.

Popovich veiktist fyrir leik liðsins við Minnesota Timberwolves á laugardagskvöldið og missti af þeim leik.

Spurs gaf það síðan út í gær að þjálfarinn myndi ekki ferðast með liðinu fyrir komandi leiki í Los Angeles og Houston. Það hefur ekki verið gefið upp hvernig veikindi þetta eru eða gefinn upp tímarammi fyrir hugsanlega endurkomu þjálfarans. Hann verður frá um óákveðinn tíma.

Johnson talaði um það í gær að hann hefði talað við Popovich á sunnudagskvöldið og það hafi verið gott hljóð í honum. Þetta er í þriðja sinn sem Johnson tekur við liðinu í forföllum Popovich.

Gregg Popovich er 75 ára gamall og er sá þjálfari sem hefur unnið flesta leiki í NBA deildinni. Hann hefur gert Spurs fimm sinnum að NBA meisturum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×