Enski boltinn

Leik­bann Kudus lengt í fimm leiki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kudus var dæmdur í alls fimm leikja bann fyrir það sem gerðist hér og í kjölfarið.
Kudus var dæmdur í alls fimm leikja bann fyrir það sem gerðist hér og í kjölfarið. Zac Goodwin/Getty Images

Leikbann Mohammed Kudus, leikmanns West Ham United í ensku úrvalsdeildinni, hefur verið lengt í fimm leiki eftir að hann var upprunalega dæmdur í þriggja leikja bann eftir að fá beint rautt spjald í leik gegn Tottenham Hotspur í október.

Kudus sá rautt í leik sem West Ham tapaði 4-1 þann 19. október síðastliðnum. Hann sparkaði fyrst í Micky van de Ven, leikmann Tottenham, áður en hann ýtti svo í andlit Tottenham-leikmannsins. Í kjölfarið ýtti hann Pape Matar Sarr og eftir að myndbandsdómari leiksins fór yfir atvikið var Kudus rekinn af velli.

Kudus var dæmdur í þriggja leikja bann sem er venja þegar menn fá rauð spjöld fyrir gróf brot. Nú hefur enska knattspyrnusambandið ákveðið að lengja bann Kudus um tvo leiki.

Það þýðir að Kudus fær alls fimm leikja bann fyrir brotið. Það þýðir að ásamt því að hafa misst af leikjum liðsins gegn Manchester United og Nottingham Forest þá verður Kudus sömuleiðis fjarverandi þegar Hamrarnir mæta Everton, Newcastle United og Arsenal.

Ásamt því að vera dæmdur í alls fimm leikja bann fékk Kudus sekt upp á rúmar átta milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×