Hinn tvítugi Bronny mun spila með South Bay Lakers en verður síðan kallaður aftur inn í lið Lakers þegar G-deildarliðið er að spila á útivelli. Talið er að hann flakki á milli liðanna tveggja næstu mánuði.
Strákurinn var með Los Angeles Lakers á móti Philadelphia 76ers í nótt en fer síðan til South Bay í dag. Bronny spilaði eina mínútu á móti 76ers en að verða fertugur faðir hans var með þrennu í sigrinum, skoraði 21 stig, tók 12 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.
James feðgarnir urðu þeir fyrstu í sögunni til að spila saman í NBA-deildinni í fyrsta leiknum á móti Minnesota Timbervwoles en strákurinn hefur ekki spilað mikið á tímabilinu.
Bronny er alls með 4 stig á 14 mínútum spiluðum og hefur komið við sögu í fjórum leikjum. Fyrsta karfan hans kom í leik í Cleveland þar sem faðir hans spilaði fyrst í NBA.
Fyrsti leikur South Bay Lakers verður í kvöld og það er óhætt að segja að áhuginn á miðum hafi aukist mikið við fréttirnar af komu Bronny. Hann fær væntanlega að spila þar sem er mikilvægt fyrir þróun hans sem leikmanns.
Miðar á leikinn í kvöld seldust strax upp og menn eru að selja þá fyrir 200 dollara, 28 þúsund krónur, á endursölumarkaðnum. Það er tólf sinnum hærra en þeir kostuðu upphaflega.
Bronny James is expected to make his G league debut tomorrow night. The game sold out within 24 hours and secondary market tickets are now going for 12x their average price. Wild. pic.twitter.com/lpQaigYFkF
— Joe Pompliano (@JoePompliano) November 8, 2024