Orðfimi ungra menningarsinna Klara Nótt Egilson skrifar 13. nóvember 2024 09:45 Ég las áhrifamikinn pistil eftir ungan höfund á vef Vísis í vikunni þar sem höfundur lýsti yfir áhyggjum af því að stór hluti ungra drengja hér á landi gæti ekki lesið sér til gagns eða gamans. Þann sama dag sat ég ráðstefnu Rithöfundasambands Íslands um stöðu bókmennta í Eddu, húsi íslenskunnar, þar sem rætt var hvort nauðsyn væri á að setja íslensk bókalög. Drengurinn sem ritaði pistilinn „Ungt fólk og þörfin fyrir skjótar aðgerðir í menntun“ heitir Fannar Logi Waldorff Sigurðsson og er aðeins sautján ára gamall. Hann er rúmlega ári eldri en yngri sonur minn, Guðmundur Galdur Egilson, sem komst listilega að orði í ritgerð sem hann skrifaði í íslenskuáfanga á sínu síðasta ári í gagnfræðaskóla. Í ritgerðinni skeggræddi Guðmundur Galdur einfalda en áhrifaríka aðferðafræði sem gæti hjálpað jafnöldrum hans að efla lesfimi og njóta yndislesturs betur og skrifaði meðal annars: „Besta leiðin til að byrja að lesa aftur, er að finna út hvað virkar best fyrir þig.” Lesfimi í hættu án aðgengis að samtímabókmenntum Í pistlinum lýsir Fannar Logi á áhrifaríkan hátt þeim áskorunum sem blasa við ungu kynslóðinni og snúa að skorti á aðgengi að lesþjálfun. Áhyggjum hans ber saman við orð yngri sonar míns, Guðmundar Galdurs, sem á heimleið okkar frá vel heppnuðum pólskum menningardögum á Listasafni Árnesinga í Hveragerði nú um helgina sagði mér að: „... krakkar á hans aldri yrðu að hafa meiri aðgang að áhugaverðum bókmenntum. Hvernig ættu börn og unglingar annars að efla les- og ritfimi?“ Guðmundur Galdur benti á í samtali okkar, líkt og Fannar Logi ritar um, að ungmenni þurfi aukið aðgengi að samtímabókmenntum sem höfða til þeirra. Annars geti slíkur skortur haft alvarleg áhrif á lesfimi þeirra og dregið úr getu þeirra til að þroska gagnrýna og skapandi hugsun. Skólabókasöfnin standa höllum fæti Orð þeirra Fannars Loga og Guðmundar Galdurs svifu mér fyrir hugskotum þegar ég hlustaði á Margréti Tryggvadóttur, formann Rithöfundasambands Íslands, ræða á ráðstefnunni Bókmenntir á berangri – þurfum við lög yfir bækurnar okkar? Þar greindi Margrét frá alvarlegum skorti á bókabúðum hérlendis og vakti einnig máls á fábreyttu úrvali nýútkominna barna- og unglingabókmennta á íslenskum skólabókasöfnum. Meðan á pallborðsumræðum ráðstefnunnar stóð, að lokinni framsögu mælenda, kom í ljós að sum skólabókasöfn hérlendis hafa einungis fjármagn til að kaupa þrjár nýjar bækur á ári. Margrét benti einnig á að bókaforði þeirra sömu skólabókasafna er að stórum hluta gamall og inniheldur ritsöfn sem komu á markað fyrir um tuttugu árum, löngu áður en núverandi nemendur fæddust. Með fullri virðingu fyrir útgáfulista fyrri ára þótti mér hryggilegt að heyra að skólabókasöfn búi við svo þröngan stakk að þau geti ekki fest kaup á nýútkomnum íslenskum bókum eftir frambærilega höfunda sem eiga fullt erindi við grunn- og menntaskólanemendur í dag. Íslensk tunga er lifandi eining í stöðugri þróun og því er mikilvægt að börn og unglingar hafi óskert aðgengi að bókmenntum með nútímalegu orðalagi. Úrelt orðalag í bókmenntum frá fyrri árum endurspeglar ekki málþróunina og slík skekkja getur dregið úr lesfærni og málskilningi ungs fólks. Hvernig eiga börn á skólaaldri að þroska lesfærni sína við slíkar aðstæður? Hlustum á framsæknar raddir unga fólksins Við, hinir almennu borgarar, þurfum að segja stóru orðin upphátt. Það er löngu tímabært að menningargeirinn, Alþingi Íslendinga og nýskapandi frumkvöðlar innan hug- og félagsvísinda taki stórstíg og nýskapandi framfaraskref á breiðum menningar- og samfélagslegum grunni með öflugar lausnir á sviði les- og ritfimi unga fólksins að leiðarljósi. Samhliða þurfum við að virkja og hlusta á raddir ungmenna í ákvarðanatöku um framsækna mótun íslenskrar bókmenntastefnu. Við þurfum einnig að stuðla að menningartengdri nýsköpun sem byggir á breiðvirkri félags- og hugvísindaörvun til að mæta ungu fólki á þeirra eigin forsendum og efla les- og ritfimi þeirra. Hættum að demba öllu á kennara Nýskapandi lausnir sem miða að aukinni les- og ritfimi ungu kynslóðarinnar eiga nefnilega ekki eingöngu að byggja á auknum kröfum til menntakerfisins. Við, sem samfélag, þurfum öll að tala oftar saman af festu og kærleika um vandann og beina sjónum okkar í auknum mæli að nýskapandi lausnum sem snúast um menningartengda samveru og samtölum í rauntíma – ekki síður en á stafrænum öldum nýjustu tækni og vísinda. Slíkar nýskapandi lausnir ættu einnig að tengja nám við raunverulegar aðstæður og efla mannleg tengsl, sérstaklega á strjálbýlum svæðum og í fámennum byggðarlögum. Ungt fólk hefur frá mörgu markverðu að segja, en raddir þeirra fá allt of sjaldan að heyrast. Af hverju? Þau hafa einfaldlega engan vettvang á sviði les- og ritfimi þar sem þau geta tjáð sig upphátt. Bókaklúbbar, ritsmiður og ljóðaupplestur Stóraukið framboð bókaklúbba, frjáls skráning í leshópa, gjaldfrítt aðgengi yngri kynslóða að ritsmiðjum og skapandi bókahátíðir fyrir unga fólkið þar sem íslenskumælandi ungmenni fá notið sín geta hæglega stuðlað að dýpri og áhrifameiri les- og ritfimi. Slíkar nýskapandi menningarlausnir gætu einnig létt verulega álagi af þreyttum kennurum og veitt nemendum ómetanlegt tækifæri til að þroska gagnrýna hugsun og blómstra á eigin forsendum. Það er mat mitt að brýn þörf sé á auknum fjárstuðningi við íslensk skólabókasöfn. Ég er einnig á þeirri skoðun að efla þurfi stuðning við nýskapandi frumkvöðlastarf meðal nemenda í efri bekkjum grunnskóla og menntaskóla með menningartengdum nýsköpunarlausnum og fjölbreytilegri nálgun við meðför íslenskrar tungu. Gefum unga fólkinu orðið Reglulegir menningarviðburðir á borð við ritfimiþjálfun, ljóðaupplestur menntaskólanema, skoðanaskipti og lifandi fræðslu um höfundarrétt stuðla nefnilega ekki aðeins að aukinni les- og ritfimi heldur veitir einnig ungu fólki ómetanlegt tækifæri til að þroska gagnrýna hugsun og koma sínum eigin hugmyndum á merkingarbært form. Í niðurlagi greinar sinnar bendir Fannar Logi réttilega á að nú þurfum við, sem þjóð, að koma einhverju í verk og fylgja eftir áður en verði of seint svo komandi kynslóðir þurfi ekki að gjalda fyrir mistök okkar samtíma, og koma mér þá orðin sem Guðmundur Galdur, yngri sonur minn, ritaði svo skemmtilega í síðasta bekk grunnskóla: „Settu þér raunhæf markmið. Þú þarft ekki að byrja á því að lesa 50 blaðsíður á dag. Ein eða tvær blaðsíður á dag eru góð byrjun og svo getur þú haldið áfram þaðan.“ Menningararfur morgundagsins hvílir í faðmi þingheims Hæstvirtur þingheimur, meðal verkefna á nýju þingi, að yfirstöðnum kosningum og myndun nýrrar ríkisstjórnar, hlýtur að vera umræða og vonandi þingfesting lagasetningar sem markar upphaf spánýrrar bókmenntastefnu íslensku þjóðarinnar. Það er von mín að Alþingi íslensku þjóðarinnar taki orð okkar almennra borgara til greina og hjálpi okkur að standa vörð um menningararf morgundagsins með því að tryggja ungu kynslóðinni aðgengi að frambærilegum bókmenntum á íslenskri tungu, svo efla megi les- og ritfimi allra þeirra barna sem einn dag erfa landið. Höfundur er bókelskur háskólanemi og tveggja barna móðir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðun: Alþingiskosningar 2024 Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Skoðun Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson skrifar Skoðun Arfur stjórnmálanna 2024 Elvar Eyvindsson skrifar Skoðun Kjósum rétt(indi) fyrir fatlað fólk! Unnur Helga Óttarsdóttir,Anna Lára Steindal skrifar Skoðun Frelsi er allra, ekki fárra útvaldra Jón Óskar Sólnes skrifar Skoðun Menntun og tækifæri: Hvað veljum við fyrir Ísland? Kolbrún Halldórsdóttir skrifar Skoðun Eyðimerkurganga kosningabaráttunnar? Viðar Hreinsson skrifar Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson skrifar Skoðun Kjóstu meiri árangur Bryndís Haraldsdóttir skrifar Skoðun Hvaða hlekkur ert þú í keðjunni? Ellý Tómasdóttir skrifar Skoðun Laxeldið verður ekki stöðvað Kristinn H. Gunnarsson skrifar Skoðun Þroskamerki þjóðar Tómas Torfason skrifar Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skrifar Skoðun Var stytting náms til stúdentsprófs í þágu ungmenna? Sigurður E. Sigurjónsson skrifar Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson skrifar Skoðun Launafólk sýndi ábyrgð – Hvað með bankana og fjármagnseigendur? Finnbjörn A. Hermannsson skrifar Skoðun Sjálfstæðar konur? Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar Skoðun Fullveldinu er fórnað með aðild að Evrópusambandinu Anton Guðmundsson skrifar Skoðun Endurhugsum dæmið, endurnýtum textíl Guðbjörg Rut Pálmadóttir skrifar Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson skrifar Skoðun Um kosningar, gulrætur og verðbólgu Jean-Rémi Chareyre skrifar Skoðun Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon skrifar Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson skrifar Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson skrifar Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson skrifar Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir skrifar Skoðun Þegar náttúruvinir hitta frambjóðendur. Hjálpartæki kjósandans Stefán Jón Hafstein skrifar Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson skrifar Skoðun Eitt heimili, ein fjölskylda og ein heilsa Pétur Heimisson skrifar Skoðun BRCA Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt skrifar Sjá meira
Ég las áhrifamikinn pistil eftir ungan höfund á vef Vísis í vikunni þar sem höfundur lýsti yfir áhyggjum af því að stór hluti ungra drengja hér á landi gæti ekki lesið sér til gagns eða gamans. Þann sama dag sat ég ráðstefnu Rithöfundasambands Íslands um stöðu bókmennta í Eddu, húsi íslenskunnar, þar sem rætt var hvort nauðsyn væri á að setja íslensk bókalög. Drengurinn sem ritaði pistilinn „Ungt fólk og þörfin fyrir skjótar aðgerðir í menntun“ heitir Fannar Logi Waldorff Sigurðsson og er aðeins sautján ára gamall. Hann er rúmlega ári eldri en yngri sonur minn, Guðmundur Galdur Egilson, sem komst listilega að orði í ritgerð sem hann skrifaði í íslenskuáfanga á sínu síðasta ári í gagnfræðaskóla. Í ritgerðinni skeggræddi Guðmundur Galdur einfalda en áhrifaríka aðferðafræði sem gæti hjálpað jafnöldrum hans að efla lesfimi og njóta yndislesturs betur og skrifaði meðal annars: „Besta leiðin til að byrja að lesa aftur, er að finna út hvað virkar best fyrir þig.” Lesfimi í hættu án aðgengis að samtímabókmenntum Í pistlinum lýsir Fannar Logi á áhrifaríkan hátt þeim áskorunum sem blasa við ungu kynslóðinni og snúa að skorti á aðgengi að lesþjálfun. Áhyggjum hans ber saman við orð yngri sonar míns, Guðmundar Galdurs, sem á heimleið okkar frá vel heppnuðum pólskum menningardögum á Listasafni Árnesinga í Hveragerði nú um helgina sagði mér að: „... krakkar á hans aldri yrðu að hafa meiri aðgang að áhugaverðum bókmenntum. Hvernig ættu börn og unglingar annars að efla les- og ritfimi?“ Guðmundur Galdur benti á í samtali okkar, líkt og Fannar Logi ritar um, að ungmenni þurfi aukið aðgengi að samtímabókmenntum sem höfða til þeirra. Annars geti slíkur skortur haft alvarleg áhrif á lesfimi þeirra og dregið úr getu þeirra til að þroska gagnrýna og skapandi hugsun. Skólabókasöfnin standa höllum fæti Orð þeirra Fannars Loga og Guðmundar Galdurs svifu mér fyrir hugskotum þegar ég hlustaði á Margréti Tryggvadóttur, formann Rithöfundasambands Íslands, ræða á ráðstefnunni Bókmenntir á berangri – þurfum við lög yfir bækurnar okkar? Þar greindi Margrét frá alvarlegum skorti á bókabúðum hérlendis og vakti einnig máls á fábreyttu úrvali nýútkominna barna- og unglingabókmennta á íslenskum skólabókasöfnum. Meðan á pallborðsumræðum ráðstefnunnar stóð, að lokinni framsögu mælenda, kom í ljós að sum skólabókasöfn hérlendis hafa einungis fjármagn til að kaupa þrjár nýjar bækur á ári. Margrét benti einnig á að bókaforði þeirra sömu skólabókasafna er að stórum hluta gamall og inniheldur ritsöfn sem komu á markað fyrir um tuttugu árum, löngu áður en núverandi nemendur fæddust. Með fullri virðingu fyrir útgáfulista fyrri ára þótti mér hryggilegt að heyra að skólabókasöfn búi við svo þröngan stakk að þau geti ekki fest kaup á nýútkomnum íslenskum bókum eftir frambærilega höfunda sem eiga fullt erindi við grunn- og menntaskólanemendur í dag. Íslensk tunga er lifandi eining í stöðugri þróun og því er mikilvægt að börn og unglingar hafi óskert aðgengi að bókmenntum með nútímalegu orðalagi. Úrelt orðalag í bókmenntum frá fyrri árum endurspeglar ekki málþróunina og slík skekkja getur dregið úr lesfærni og málskilningi ungs fólks. Hvernig eiga börn á skólaaldri að þroska lesfærni sína við slíkar aðstæður? Hlustum á framsæknar raddir unga fólksins Við, hinir almennu borgarar, þurfum að segja stóru orðin upphátt. Það er löngu tímabært að menningargeirinn, Alþingi Íslendinga og nýskapandi frumkvöðlar innan hug- og félagsvísinda taki stórstíg og nýskapandi framfaraskref á breiðum menningar- og samfélagslegum grunni með öflugar lausnir á sviði les- og ritfimi unga fólksins að leiðarljósi. Samhliða þurfum við að virkja og hlusta á raddir ungmenna í ákvarðanatöku um framsækna mótun íslenskrar bókmenntastefnu. Við þurfum einnig að stuðla að menningartengdri nýsköpun sem byggir á breiðvirkri félags- og hugvísindaörvun til að mæta ungu fólki á þeirra eigin forsendum og efla les- og ritfimi þeirra. Hættum að demba öllu á kennara Nýskapandi lausnir sem miða að aukinni les- og ritfimi ungu kynslóðarinnar eiga nefnilega ekki eingöngu að byggja á auknum kröfum til menntakerfisins. Við, sem samfélag, þurfum öll að tala oftar saman af festu og kærleika um vandann og beina sjónum okkar í auknum mæli að nýskapandi lausnum sem snúast um menningartengda samveru og samtölum í rauntíma – ekki síður en á stafrænum öldum nýjustu tækni og vísinda. Slíkar nýskapandi lausnir ættu einnig að tengja nám við raunverulegar aðstæður og efla mannleg tengsl, sérstaklega á strjálbýlum svæðum og í fámennum byggðarlögum. Ungt fólk hefur frá mörgu markverðu að segja, en raddir þeirra fá allt of sjaldan að heyrast. Af hverju? Þau hafa einfaldlega engan vettvang á sviði les- og ritfimi þar sem þau geta tjáð sig upphátt. Bókaklúbbar, ritsmiður og ljóðaupplestur Stóraukið framboð bókaklúbba, frjáls skráning í leshópa, gjaldfrítt aðgengi yngri kynslóða að ritsmiðjum og skapandi bókahátíðir fyrir unga fólkið þar sem íslenskumælandi ungmenni fá notið sín geta hæglega stuðlað að dýpri og áhrifameiri les- og ritfimi. Slíkar nýskapandi menningarlausnir gætu einnig létt verulega álagi af þreyttum kennurum og veitt nemendum ómetanlegt tækifæri til að þroska gagnrýna hugsun og blómstra á eigin forsendum. Það er mat mitt að brýn þörf sé á auknum fjárstuðningi við íslensk skólabókasöfn. Ég er einnig á þeirri skoðun að efla þurfi stuðning við nýskapandi frumkvöðlastarf meðal nemenda í efri bekkjum grunnskóla og menntaskóla með menningartengdum nýsköpunarlausnum og fjölbreytilegri nálgun við meðför íslenskrar tungu. Gefum unga fólkinu orðið Reglulegir menningarviðburðir á borð við ritfimiþjálfun, ljóðaupplestur menntaskólanema, skoðanaskipti og lifandi fræðslu um höfundarrétt stuðla nefnilega ekki aðeins að aukinni les- og ritfimi heldur veitir einnig ungu fólki ómetanlegt tækifæri til að þroska gagnrýna hugsun og koma sínum eigin hugmyndum á merkingarbært form. Í niðurlagi greinar sinnar bendir Fannar Logi réttilega á að nú þurfum við, sem þjóð, að koma einhverju í verk og fylgja eftir áður en verði of seint svo komandi kynslóðir þurfi ekki að gjalda fyrir mistök okkar samtíma, og koma mér þá orðin sem Guðmundur Galdur, yngri sonur minn, ritaði svo skemmtilega í síðasta bekk grunnskóla: „Settu þér raunhæf markmið. Þú þarft ekki að byrja á því að lesa 50 blaðsíður á dag. Ein eða tvær blaðsíður á dag eru góð byrjun og svo getur þú haldið áfram þaðan.“ Menningararfur morgundagsins hvílir í faðmi þingheims Hæstvirtur þingheimur, meðal verkefna á nýju þingi, að yfirstöðnum kosningum og myndun nýrrar ríkisstjórnar, hlýtur að vera umræða og vonandi þingfesting lagasetningar sem markar upphaf spánýrrar bókmenntastefnu íslensku þjóðarinnar. Það er von mín að Alþingi íslensku þjóðarinnar taki orð okkar almennra borgara til greina og hjálpi okkur að standa vörð um menningararf morgundagsins með því að tryggja ungu kynslóðinni aðgengi að frambærilegum bókmenntum á íslenskri tungu, svo efla megi les- og ritfimi allra þeirra barna sem einn dag erfa landið. Höfundur er bókelskur háskólanemi og tveggja barna móðir.
Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skrifar
Skoðun Launafólk sýndi ábyrgð – Hvað með bankana og fjármagnseigendur? Finnbjörn A. Hermannsson skrifar
Skoðun Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon skrifar