Skoðun

And­leg þraut­seigja: Að vaxa í gegnum á­skoranir

Sigrún Þóra Sveinsdóttir skrifar

Er hægt að byggja upp andlega þrautseigju? Eða eru sumir nátturulega betri en aðrir að standa af sér storminn og hafa þar af leiðandi fengið það að vöggugjöf á meðan aðrir eru ekki svo heppnir. Þetta eru spurningar sem margir velta fyrir sér, sérstaklega þegar þeir standa frammi fyrir áskorunum sem virðast óyfirstíganlegar.

Andleg þrautseigja er færni sem hjálpar okkur að takast á við áskoranir og mótlæti í lífinu. Henni má lýsa í tveimur hlutum; að komast í gegnum erfiðleika og að vaxa og þroskast í gegnum þá. Fyrri hlutinn felur í sér að komast í gegnum áskoranir og erfiðleika sem koma upp. Á meðan seinni hlutinn snýr að því að vera opin fyrir tækifærinu sem liggur í erfiðleikum, að þroskast og vaxa í gegnum erfiðleikana. Það er alls ekki auðvelt eða sjálfgefið en það er hins vegar dýrmætt tækifæri sem við höfum til þess að takast betur á við erfiðleika og áskoranir í lífinu og verða betri útgáfa af okkur sjálfum eftir á. Á þann hátt er hægt að snúa erfiðleikum og áskorunum sér í hag, í stað þess eingöngu að komast í gegnum þá.

Þar sem þetta ferli er krefjandi og þarfnast orku, er eðlilegt að spyrja sig: Af hverju ætti ég að leggja svona mikið á mig til þess að efla andlega þrautseigju? Er þetta ekki bara einhver lúxus sem fáir hafa tíma fyrir?

Svarið liggur í því að lífið er fullt af áskorunum og erfiðleikum, bæði minni og meiriháttar. Það fylgir því að vera manneskja með flókið hormóna- og taugakerfi að upplifa tilfinningar eins og depurð, kvíða, streitu eða sorg. Það er eitthvað sem við höfum ekki stjórn á. En það sem við höfum stjórn á og getum haft áhrif á er það hvernig við bregðumst við þessum erfiðleikum. Við getum þjálfað okkur í því að velja uppbyggileg viðhorf, tilfinningar og hegðun sem byggja upp andlega þrautseigju. Það er tækifærið sem við höfum.

Hagnýt verkfæri til að efla andlega þrautseigju

Við getum aukið andlega þrautseigju með því að gefa okkur reglulega tíma til að velja hvernig við bregðumst við áskorunum í daglegu lífi. Aðferðir eins og núvitund, öndunartækni og að virkja jákvæðar tilfinningar eru dæmi um leiðir sem við getum þjálfað okkur í til að efla okkur í að takast á við alls kyns áskoranir í lífinu.

Höfundur er sálfræðingur og doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×