Körfubolti

LeBron gefur vís­bendingu hve­nær hann hættir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James segir að það styttist í að skórnir fari á hilluna.
LeBron James segir að það styttist í að skórnir fari á hilluna. getty/Harry How

Þrátt fyrir að verða fertugur í lok ársins virðist ekkert vera að hægjast á LeBron James. Hann segir að hann spili þó varla mörg ár í viðbót.

LeBron hefur náð þrefaldri tvennu í síðustu þremur leikjum Los Angeles Lakers í NBA-deildinni. Hann er langelsti leikmaður í sögu deildarinnar sem hefur afrekað það.

Í ellefu leikjum á tímabilinu er LeBron með 24,3 stig, 8,1 frákast og 9,4 stoðsendingar að meðaltali. Hann hefur hitt úr 52 prósent skota sinna.

Margir velta því fyrir sér hversu lengi LeBron ætlar að spila í viðbót. Í nýlegu viðtali ýjaði hann að því að endirinn á ferlinum væri í nánd.

„Þetta er ekki ég heldur hugurinn. Þar sem hugurinn er stýrir því hvert restin af líkamanum fer eða hvað gerist. Ég veit ekki, ég spila ekki mikið lengur ef ég á að vera hreinskilinn. Ég veit ekki hversu lengi það er, eitt eða tvö ár,“ sagði LeBron.

„Ég ætla ekki að spila þar til hjólin fara af. Ég ætla ekki að vera sá gaur. Ég ætla ekki að vanvirða leikinn því ég vil vera inni á vellinum.“

LeBron er á sínu 22. tímabili í NBA. Hann er stigahæsti leikmaður í sögu deildarinnar og sá fjórði stoðsendingahæsti. LeBron hefur fjórum sinnum orðið NBA-meistari á ferlinum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×