Þetta kemur fram í tilkynningu á vef KÍ. Verkföll hefjast í skólunum 6. janúar 2025 og lýkur 31. janúar hafi kjarasamningar ekki náðst fyrir þann tíma. Félagsmenn í Félagi grunnskólakennara og Skólastjórafélagi Íslands sem starfa í skólunum greiddu atvæði um verkfallsboðunina og stóð atkvæðagreiðsla yfir 19. til 21. nóvember.
Fram kemur í tilkynningunni að kjörsókn hafi verið á bilinu 96 og 100 prósent og 98 til 100 prósent þeirra sem greiddu atkvæði hafi verið fylgjandi verkfalli.
Nú standa yfir verkföll í þremur grunnskólum: Áslandsskóla í Hafnarfirði, Laugalækjarskóla í Reykjavík og Lundarskóla á Akureyri. Verkföllin hófust 29. október og lýkur á morgun, 22. nóvember. Á mánudag taka við verkföll í Garðaskóla í Garðabæ, Árbæjarskóla í Reykjavík og Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Verkföllin standa til 20. desember hafi samningar ekki náðst.
Þá standa yfir ótímabundin verkföll í Leikskóla Seltjarnarness, leikskólanum Holti í Reykjanesbæ , Drafnarsteini í Reykjavík og Ársölum á Sauðárkróki. Eins stendur yfir verkfall í Fjölbrautaskóla Suðurlands sem hófst 29. október og varir til 20. desember. Þá lagði starfsfólk MR niður störf síðastliðinn mánudag og vara þau verkföll eins til 20. desember. Þá er félagsfólk KÍ í Tónlistarskóla Ísafjarðar í verkfalli sem jafnframt stendur til 20. desember.
Samninganefndir kennara annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar funda þriðja daginn í röð hjá ríkissáttasemjara í Karphúsinu. Magnús Þór Jónsson formaður KÍ segir í samtali við fréttastofu að ólíklegt sé að samningar verði undirritaðir í dag en viðræður séu í gangi.