Innlent

Fjölmiðlabann í kjara­deilu kennara

Tómas Arnar Þorláksson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari. vísir/vilhelm

Fjölmiðlabanni hefur verið komið á í kjaradeilu Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þetta staðfestir Ástráður Haraldssson ríkissáttasemjari í samtali við Vísi en hann lagði bannið til. Deiluaðilar hafa setið á samningafundi í Karphúsinu frá því í hádeginu. 

„Það sem gerðist í dag var að við sammæltumst um ákveðinn grundvöll fyrir framhaldi viðræðnanna. Sem þýðir þá það að við getum aðeins skipt um fasa í því hvernig við vinnum þetta og í ljósi þess að við erum komin á einhverja sameiginlega vegferð sem við vonandi náum að leiða fram til gerðar kjarasamnings þá ákvað ég að biðja fólkið um að tjá sig ekki frekar við fjölmiðla.“

Fyrr í dag, áður en fjölmiðlabanni var komið á, sagði Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaga í samtali við fréttastofu að Kennarasambandið færi með rangfærslur í yfirlýsingu sem það birti í dag. Þar fullyrti sambandið að Inga hefði lagt sjálf til í síðustu viku að verkföllum yrði frestað gegn ákveðnum skilyrðum, ekki ósvipað því sem Kennarasambandið sjálft lagði til í gærkvöldi. 

Inga mótmælir þessu harðlega, hennar tillaga hafi verið allt annars eðlis, og áréttar að Kennarasambandið fari þar með rangfærslur.

Yfirlýsingar og athugasemdir hafa gengið á víxl milli deiluaðila í dag, að hluta til á sama tíma og setið er á samningafundi. Inga, sem var í Karphúsinu þegar hún ræddi við fréttamann í síma fyrr í dag, sagði að allir einbeittu sér að því að ná saman. Ekki væri hægt að segja nokkuð til um gang viðræðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×