Skoðun

Þarf Á­byrg fram­tíð 14,1% til að komast í kapp­ræður Heimildarinnar?

Jóhannes Loftsson skrifar

Stærsta leyndarmál íslenskra stjórnmála í dag er að Ábyrg Framtíð býður aðeins fram í einu kjördæmi. Í könnun Prósent 22. nóvember fær Ábyrg Framtíð 0,7% fylgi á landsvísu. Yfirfært yfir í Reykjavík Norður, jafngildir þetta 4%. Við höfum fengið staðfest að könnunarfyrirtækin dreifa atkvæðum okkar á kjördæmi sem við bjóðum ekki fram í.

Í kvöld byrja ríkisstyrktir einkafjölmiðlar að halda kappræður. Heimildin ríður á vaðið. Þau hafa þó tilkynnt að þau muni aðeins bjóða flokkum sem hafa ná 2.5% fylgi.

Ábyrg Framtíð hefur enn ekki fengið boð þótt við séum að mælast í 4% fylgi og því í dauðafæri að ná manni inn. Ef heimildin miðar bara við fylgi á landsvísu, óháð því hvort framboðið býður fram eða ekki, jafngildir þetta miðað við dreifingu kjósenda milli kjördæma 5,65x2,5%=14,1%.

Ábyrg framtíð þarf því að verða stærri en miðflokkurinn til að Heimildin leyfi ábyrgri framtíð að kynna málefni sín fyrir lesendum heimildarinnar. Á sama tíma er Sameinaða Útgáfufélagið ehf, sem rekur Heimildina að þiggja 67 milljóna rekstrarstyrk frá ríkinu til að “efla” lýðræðislega umræðu.

Sjáum til. Kappræðurnar eru í kvöld. Það er aldrei að vita. Kannski hringja þeir.

En af hverju ætti að kjósa Ábyrga Framtíð?

Ábyrg Framtíð er örflokkur, án milljarða styrkja sem aðrir flokkar fá og því gætu margir verið í vafa um af hverju þeir ættu að “eyða” atkvæðinu sínu í slíkan smáflokk.

Svarið er í stjórnarskrá Íslands. Alþingismenn eiga bara að vera bundnir eigin sannfæringu. Stjórnarskráin vill ekki sjá alþingismenn sem bara hlýða því sem flokksforystan segir. Þessi vísdómur hefur í dag gleymst og fyrir vikið sitja Íslendingar nú uppi með 63 hlýðna alþingismenn. Það gildir litlu hvað þessi þingmenn segja í umræðunni, því á endanum hlýða þeir allir. Vinstrið samþykkti að selja Íslandsbanka, hægrið varði frelsisskerðingar kóvid-tímans og friðarsinnarnir studdu vopnakaup fyrir Úkraínu og lokun Rússneska sendiráðsins.

Framboð Ábyrgrar Framtíðar í einu kjördæmi er nálægt því að vera einstaklingsframboð í anda stjórnarskrárinnar. Við höfum sérfræðiþekkingu á stóru málunum sem við tölum fyrir og erum fyrir vikið til þess fallnir að geta haft mikil áhrif, hvort sem við lendum innan eða utan ríkisstjórnar. Sú umræða sem þegar er komin upp um uppgjör covidtímans er dæmi um hvernig við höfum þegar snúið umræðunni. Hér eru svo dæmi um hvernig áhrif okkar munu verða á Alþingi.

Lærum lexíuna af covid tímanum

Frá upphafi covidtímans höfum við gagnrýnt stefnu yfirvalda og varað við nær flestu sem miður fór. Nú er útlit fyrir að landlæknir sem kom að flestum ákvörðununum verði næsti heilbrigðisráðherra. Ef það gerist verður raunveruleg hætta á að uppgjörið breytist í hvítþvott og óþægilegum upplýsingum verði sópað undir teppið. Ef Ábyrg framtíð kemst á þing, verðum við í stöðu til að sjá til þess að allt komi upp á yfirborðið svo sagan endurtaki sig ekki aftur. Margt gæti komið mörgum á óvart samanber nýlega grein. Við munum einnig halda áfram að vekja athygli á þeirri vaxandi heilsufarsógn sem nú steðjar að og nauðsynlegt er að komist í umræðuna svo unnt verði að bregðast við og lágmarka skaðann.

Björgum Reykjavíkurflugvelli

Reykjavíkurflugvöllur stenst ekki lengur lágmarkskröfur Alþjóðaflugmálastofnunar og íslenskra reglugerða því nothæfisstuðullinn eru kominn langt undir viðmið. Þetta segja nýlegir útreikningar sem oddviti Ábyrgrar Framtíðar hefur gert á ýtarlegustu veðurgögnum sem safnað hefur verið af flugvellinum og jafnframt einu veðurmælingum sem farið hafa fram eftir að neyðarbrautinni var lokað 2017. Þótt yfirvöld hafi safnað þessum gögnum með tugmilljónakostnaði, hafa þau ekki enn viljað nota þau. Síðustu útreikningar sem fengu mikla gagnrýni, (þ.m.t.frá Alþjóðaflugmálastofnuninni) er þeim hagstæðari og gerir þeim kleift að halda áfram á sömu braut svo lengi sem þeir endurreikna ekki nothæfisstuðulinn sjálf.

Ábyrg Framtíð mun knýja á að þessi nothæfisstuðull verði strax reiknaður og allur undirbúningur framkvæmda á gömlu neyðarbrautinni þarf að fara í framkvæmdastopp. Samkomulagið um Reykjavíkurflugvöll krefst þess nefnilega að rekstraröryggi sé tryggt. Rekstraröryggi sem uppfyllir reglur hefur aldrei verið til staðar síðan neyðarbrautinni var lokað.

Ef ráðamenn vilja flytja Reykjavíkurflugvöll þá ber þeim því að byggja nýjan flugvöll áður en þeir aðhafast nokkur. Ef þeir vilja ekki flytja flugvöllinn, þurfa þeir að laga hann strax. Ein leið til þess er að byggja nýja flugbraut út í sjó sem er 90° á austur-vestur brautina. Viðbótarkostnaður við slíka framkvæmd yrði í algjöru lágmarki ef framkvæmdin yrði sameinuð fyrirhuguðum brúarframkvæmdum yfir Fossvog.

Byggjum aftur ódýrt með Laugarnesgöngum

Sundabrautin er yfir 50 ára verkefni sem er ekki að fara af stað á næstunni sama hvað stjórnmálamenn eru að segja í dag. Peningurinn er ekki til og flækjustig verkefnisins er það mikið vegna tengsla við annað (Sæbrautarstokkur, Sundahöfn, umferðarstíflur á Sæbraut og friðland) að gríðarlega skipulagningu þarf, sem mun seinka verki verulega. Verkefnið mun kosta 150 milljarða og mun án efa hækka þegar nær dregur. Er virkilega vilji hjá þjóðinni að fá tollhlið í Ártúnsbrekku fyrir alla umferð? Nei. Ég held ekki.

Til er miklu ódýrari og einfaldari lausn á Sundabraut en Sundabraut sjálf. Með göngum frá Laugarnesi má t.d. tengja Kjalarnes við Reykjavík fyrir 30 milljarða, og með öðrum styttri göngum frá Laugarnesi gegnum Viðey með landfyllingartengingu í land er hægt að tengja Grafarvog með lágmarkstilkostnaði.

Við þessar framkvæmdir opnast vegtengingar á stór byggingarsvæði úthverfa sem auðvelt yrði að byggja hratt og ódýrt á. Fyrir síðustu aldamót var fasteignaverð helmingi lægra. Meginmunurinn á þeim tíma var að ódýr uppbygging á úthverfum var leyfð. Byggjum ódýrt aftur og leyfum ódýra uppbyggingu úthverfa aftur.

Kjósið breytingar

Það er skilgreiningin á geðveiki að kjósa alltaf það sama og búast við breytingum. Til að fá breytingar þarf að kjósa nýtt. Ef þessi mál sem nefnd eru hér að framan eru mál sem þér líst á, er atkvæði til Ábyrgrar framtíðar lang öflugasta leið til að fá þessi mál í gegn. Enginn mun berjast jafn mikið fyrir að þessar hugmyndir raungerist og sá sem átti hugmyndina. Ólíkt hinum flokkunum eru öll okkar stefnumál uppi á borði og við erum eini flokkurinn sem mun ekki hlýða neinu öðru en okkar sannfæringu. Lykilstefna okkar er að öllu valdi þurfi að fylgja ábyrgð, og ef yfirvöld vilja ekki taka ábyrgðina á sig ber þeim að skila valdinu aftur til fólksins. Aðeins með sannleikanum er hægt að fá yfirvöld til að vera ábyrg. Það er kominn tími til að gera íslensk stjórnvöld ábyrg aftur gagnvart fólkinu í landinu en ekki gagnvart ólýðræðislegum skuggastjórnum gömlu stjórnmálaflokkanna.

Höfundur er formaður Ábyrgrar Framtíðar.




Skoðun

Sjá meira


×