Enski boltinn

Metinn á rúm­lega 17 milljarða fyrr á árinu en má nú fara á láni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ferguson er lærisveinn Heimis Hallgrímssonar hjá Írlandi.
Ferguson er lærisveinn Heimis Hallgrímssonar hjá Írlandi. Stephen McCarthy/Getty Images

Evan Ferguson, framherji Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni sem og írska landsliðsins, skaust hratt upp á stjörnuhimininn og jafn hratt niður.

Ár er langur tími í fótbolta og hinn tvítugi Ferguson gott dæmi um það. Eftir frábæra innkomu í lið Brighton tímabilið 2022-23 þá fékk Ferguson stærra hlutverk á síðustu leiktíð.

Þó hann hafi ekki stolið fyrirsögnunum þá spilaði hann nægilega vel til að vera orðaður við fjölda liða, bæði í janúarglugganum síðasta sem og hann var á óskalista liða á borð við Chelsea og Arsenal síðasta sumar.

Greindi vefmiðillinn Goal frá því að Brighton væri með 100 milljón punda verðmiða á framherjanum unga en sú upphæð samsvarar 17 og hálfum milljarði íslenskra króna.

Nú, innan við ári frá því að Goal birti frétt sína um 100 milljón punda framherjann frá Írlandi, greinir The Telegraph frá því að Ferguson megi fara á láni í janúar. Ferguson virðist ekki í miklum metum hjá Fabian Hürzeler en sá tók við þjálfun Brighton síðasta sumar. Síðan þá hefur Írinn aðeins komið við sögu í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni og skorað eitt mark.

Hürzeler er því tilbúinn að leyfa framherjanum að fara á láni en í stað þess að vera orðaður við Arsenal og Chelsea þá eru það Fulham, West Ham United, Newcastle United og nýliðar Leicester City sem vilja fá framherjann í sínar raðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×