Skoðun

Kór­tón­leikar í desem­ber

Ásdís Björg Gestsdóttir skrifar

Það er desember. Úr útvarpinu hljóma jólalög sem létta svo sannarlega lundina í umferðinni á leiðinni heim. Reyndar eru rauðu bremsuljósin alveg svolítið jólaleg ef litið er á þau með Pollíönnuaugunum. Eða eins og Oddur vinur minn orðaði það einhvern tímann: Nú ljóma afturljósin skær.

Fæstir gætu hugsað sér jól án jólatónlistarinnar. Hátíð ljóss og friðar hefur verið innblástur fyrir öll helstu tónskáld heimsins frá upphafi alda og í öllum tónlistarstefnum. Þúsundir Íslendinga sækja jólatónleika í desember, og álíka fjöldi kemur fram á slíkum. Fyrir kórsöngvara er þetta nefnilega uppskerumánuður. Mánuðurinn þar sem æfingar síðustu mánaða bera árangur og við fáum að deila því sem tónlistin gefur okkur; gleðinni, þakklætinu og hjartahlýjunni.

Kórastarfið á Íslandi er blómlegt. Hér starfa hundruð kóra og hátt í 150.000 landsmanna hafa sungið í þessum kórum. Það er því greinilegt að kórtónlist á sér stóran sess í hjörtum okkar allra.

Um helgina er uppskeruhátíð í Langholtskirkju. Í 46. sinn höldum við Jólasöngva Langholtskirkju, þar sem hátt í 100 kórsöngvarar, úr þremur kórum og á öllum aldri koma saman ásamt hljómsveit og áður nefndum Oddi sem syngur einsöng, og flytja bæði gamla og hefðbundna, en líka nýja og spennandi jólatónlist, allt frá fornkirkjulegum sálmum til Baggalúts!

Nú er tíminn til að skapa ógleymanlegar minningar og fylla hjartað af jólagleði. Kórar landsins bjóða ykkur velkomin til að njóta með okkur og upplifa rólegar en einstakar stundir í annríki desembermánaðar.

Sjáumst á kórtónleikum!

Höfundur er kennari og kórsöngvari.




Skoðun

Sjá meira


×