Sport

Van Gerwen ætlar ekki að horfa á Luke Littler í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael van Gerwen og Luke Littler eru tveir af vinsælustu spilurunum á HM í pílu. Báðir litríkir karakterar og frábærir spilarar.
Michael van Gerwen og Luke Littler eru tveir af vinsælustu spilurunum á HM í pílu. Báðir litríkir karakterar og frábærir spilarar. Getty/Alex Pantling/James Fearn

Hollendingurinn Michael van Gerwen komst auðveldlega áfram í þriðju umferð heimsmeistaramótsins í pílukasti í gærkvöldi en í kvöld er komið að hinum unga og vinsæla Luke Littler.

Pressan hefur vanalega verið hvað mest á Van Gerwen fyrir HM í pílukasti enda er hann þrefaldur heimsmeistari. Núna er minna verið að spá í honum en þeim mun meira í hinum sautján ára gamla Littler.

Eftir sigur sinn var Van Gerwen spurður að því hvort hann ætlaði að horfa á leikinn hjá Littler í kvöld.

„Nei eiginlega ekki. Ég sé hann í hverri viku af hverju ætti ég að hafa áhuga á því,“ sagði Van Gerwen á blaðamannafundi. Sky Sports segir frá.

„Við hvern er hann að spila,“ spurði Van Gerwen og svarið var Ryan Meikle.

„Ryan Meikle er góður spilari en Luke er miklu sigurstranglegri í leiknum. Ryan spilar frekar hægt þannig að það gæti kannski eitthvað óvænt gerst,“ sagði Van Gerwen.

„Hann yrði ekki sá fyrsti til að tapa óvænt í fyrstu umferðinni,“ sagði Van Gerwen og glotti enda að stríða bresku blaðamönnunum í salnum.

„Auðvitað býst ég við því að Luke vinni. Það er frábært hvað hann hefur gert fyrir pílukastíþróttina og hann er stórkostlegur,“ sagði Van Gerwen.

Þótt að Van Gerwen ætli ekki að horfa þá munu örugglega margir vera límdir við sjónvarpsskjáinn enda mikil spenna fyrir Littler á mótinu.

Útsendingin frá seinni hluta sjöunda keppnisdagsins hefst klukkan 18.55 en viðureign Ryan Meikle og Luke Littler er númer þrjú á kvöldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×