Humphries tryggði sér sæti í þriðju umferð heimsmeistaramótsins með öruggum sigri gegn Frakkanum Thibault Tricole á fyrsta degi mótsins. Hann mætir Walesverjanum Nick Kenny, sem situr í 33. sæti heimslistans, í þriðju umferð og verður að teljast ansi líklegt að Humphries beri þar sigur úr býtum.
Eftir það fer róðurinn í átt að úrslitum hins vegar líklega að þyngjast fyrir heimsmeistarann ríkjandi.
Ef allt fer eftir bókinni mun Humphries mæta heimsmeistaranum frá 2020 og 2022, Peter Wright, og í átta manna úrslitum og undanúrslitum gæti hann þurft að slá út tvo nafna sína til að eiga möguleika á að verja titilinn.
Mögulega gæti Luke Woodhouse, sem situr í 41. sæti heimslistans, slysast í átta manna úrslit og í undanúrslitum verður að teljast ansi líklegt að Luke Littler verði andstæðingur hans ef Humphries fer alla leið þangað. Littler er af flestum talinn líklegastur til að vinna mótið.
Humphries gæti því þurft að slá tvo nafna sína úr leik á leið sinni að sínum öðrum heimsmeistaratitli, en nafnarnir Humphries og Littler mættust einmitt í úrslitum á síðasta heimsmeistaramóti þar sem sá fyrrnefndi hafði betur, 7-4.