Árið er búið að vera viðburðarríkt fyrir íslensk fjármálafyrirtæki og fjármálamarkað. Segja má að viðamesta málið hafi snúið að lausn að vanda Grindavíkinga en þar unnu bankarnar með stjórnvöldum með aðkomu sinni að fasteignafélaginu Þórkötlu.
Af jákvæðum þáttum ber fyrst að nefna áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar og að Seðlabankinn hafi hafið vaxtalækkunarferlið sitt. Að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum er eitt mikilvægasta hagsmunamál okkar allra. Á árinu kom í ljós að íslenskir neytendur eru í sérflokki í Evrópu er kemur að hreyfanleika, þ.e. þeir eru duglegastir allra Evrópubúa að færa viðskipti sín á milli fjármálafyrirtækja en þannig stuðla þeir að aukinni verðsamkeppni á fjármálamarkaði. Þrátt fyrir að sértæk skatt- og kostnaðarbyrði hér á landi sé sú mesta í Evrópu voru álögur á íslensk fjármálafyrirtæki enn auknar á árinu. Svikahrappar á netinu héldu áfram að svíkja fé úr fólki og verða þeir stöðugt færari í því að stela fjármunum m.a. með hjálp gervigreindar. Það eru óveðursský á lofti í Evrópu enda þungi regluverksins að verða of mikill fyrir evrópsk fyrirtæki og Evrópa að dragast sífellt aftur úr hvað samkeppnishæfni varðar.
Grindavík og Þórkatla
Bankarnar unnu með stjórnvöldum vegna þeirrar hrikalegu stöðu sem Grindvíkingar eru í með því að setja íbúðalán bankanna í fasteignafélagið Þórkötlu. Þótt þetta leysi sannarlega ekki vanda Grindvíkinga né létti sorg þeirra vegna óvissunnar framundan þá gerði þessi aðgerð stjórnvalda og bankanna Grindvíkingum kleift að koma sér fyrir í eigin húsnæði.
Það eru óveðursský á lofti í Evrópu enda þungi regluverksins að verða of mikill fyrir evrópsk fyrirtæki og Evrópa að dragast sífellt aftur úr hvað samkeppnishæfni varðar.
Álögur héldu áfram að aukast og eru þær mestu í Evrópu
Álögur héldu áfram að aukast á innlánsstofnanir á árinu en Seðlabankinn ákvað í apríl síðastliðnum að hækka bindiskylduna úr 2% í 3% en hún var 1% í fyrra. Til samanburðar er bindiskyldan almennt séð 1% í löndum evrusvæðisins. Aukin bindiskylda dregur úr möguleikum innlánsstofnana að ávaxta sitt fé og hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kveðið upp úr um að bindiskylda virki með sama hætti á rekstur banka og álagning skatta. Í því samhengi má benda á skýrslu, sem Gunnar Haraldsson hagfræðingur hjá Intellecon, vann fyrir SFF og kynnt var nú í nóvember. Sú skýrsla sýndi að sértæk skattbyrði íslenskra banka er sú langhæsta í Evrópu. Hún nemur 1,18% af áhættuvegnum eignum en það er þrefalt hærra hlutfall en að meðaltali í Evrópu. Hlutfallið er meira en tvöfalt hærra en þar sem það er hæst á hinum Norðurlöndunum en það er 0,56% í Finnlandi.
Langþráð lækkun stýrivaxta
Seðlabankinn hóf langþráð vaxtalækkunarferli sitt í október. Það voru töluverð tímamót enda í fyrsta sinn í rúmlega þrjú ár sem Seðlabankinn lækkar vexti. Einsýnt er að stýrivextir muni halda áfram að lækka á næstu misserum samfara hjöðnun verðbólgunnar. Verðbólga án húsnæðis er komin niður í 2,8%, eða á mjög ásættanlegar slóðir, en verðbólga með húsnæði er enn tiltölulega há þó hún hafi hjaðnað mikið frá þegar hún náði hæst.
Ekki er að draga úr netsvikum nema síður sé
Netsvikahrappar verða stöðugt þróaðri og hefur tilkoma gervigreindar gert þeim auðveldara fyrir með að svíkja fé úr fólki og fyrirtækjum. Það skiptir miklu máli að efla samtakamátt bæði fyrirtækja og stjórnvalda til þess að draga úr slíkum svikum. Ein mikilvægasta vörnin er þó að fræðsla því besta vörnin er alltaf við sjálf.
Fjármálalæsi - jöfnun tækifæri barna
Mikilvægt er að gera fjármálalæsi að skyldufagi í grunnskólum og tryggja þannig að ekkert barn fari út í lífið án þess að hafa fengið kennslu fjármálalæsi. Það er mjög mikilvægur þáttur í að jafna stöðu allra barna á Íslandi, burtséð frá fjölskylduaðstæðum eða skólahverfum.
Það að mismunur á inn- og útlánsvöxtum í Evrópu hafi verið sá minnsti hér á landi fyrir utan Þýskaland og Frakkland bendir til þess að þessi hreyfanleiki neytenda sé að skila sér í verðlagningu.
Íslenskir neytendur veita fjármálafyrirtækjunum mikið aðhald
Íslenskir neytendur eru langduglegastir Evrópubúa að færa viðskipti sín milli banka og vátryggingafélaga. Þetta kom fram í könnun sem Gallup gerði hér á landi og var sambærileg könnunum sem gerðar hafa verið í Evrópu. Vegna tæknibreytinga og sjálfvirknivæðingar er afar auðvelt að færa sig á milli fyrirtækja. Þessi hreyfanleiki gerir það að verkum að íslenskir neytendur eru duglegastir við að veita fjármálafyrirtækjum aðhald varðandi verðlagningu. Það að mismunur á inn- og útlánsvöxtum í Evrópu hafi verið sá minnsti hér á landi fyrir utan Þýskaland og Frakkland bendir til þess að þessi hreyfanleiki neytenda sé að skila sér í verðlagningu.
Regluvæðing að gera út af við samkeppnishæfni fyrirtækja í Evrópu
150 ár eru síðan fyrstu innlendu reglurnar um fyrirtæki í fjármálaþjónustu voru settar hér á landi með tilskipun Kristjáns IX. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá en umfang innleiðingar Evrópureglna sem tengjast fjármálamörkuðum hefur aukist stórkostlega á undanförnum árum. Í umfangsmikilli skýrslu Mario Draghi, fyrrum bankastjóra evrópska seðlabankans, frá því í haust kemur, fram að þungi regluverksins á samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja er farinn að verða það mikill að með sama áframhaldi muni fyrirtæki álfunnar einfaldlega ekki getað keppt við fyrirtæki utan álfunnar. Það er því sérstaklega mikilvægt að stjórnvöld og löggjafinn hér á landi endurskoði þá gullhúðun sem er til staðar hér á landi og að gullhúðun framtíðarinnar sé vel rökstudd og kostnaðarmat á henni fari fram.
Samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja
Litið fram á veginn vonumst við til þess að ný ríkisstjórn undir stjórn Kristrúnar Frostadóttur muni bera gæfu til þess að taka góðar og skynsamlegar ákvarðanir, þjóð og atvinnulífi til heilla. Verðbólga og vextir eru á leiðinni niður töluvert seinna en annars staðar í Evrópu en það mun það létta verulega á íslenskum almenningi og fyrirtækjum. Þetta verður að vera forgangsatriði stjórnarinnar en það verður ekki gert með því að auka útgjöld ríkisins heldur með aðhaldi og festu í ríkisfjármálum.
Það er því sérstaklega mikilvægt að stjórnvöld og löggjafinn hér á landi endurskoði þá gullhúðun sem er til staðar hér á landi og að gullhúðun framtíðarinnar sé vel rökstudd og kostnaðarmat á henni fari fram.
Hvað íslensk fjármálafyrirtæki varðar viljum við sjá stjórnvöld gera gangskör í því að skapa hér á landi samkeppnishæf skilyrði á við það sem gerist í helstu samanburðarríkjum Íslands. Bætt samkeppnisskilyrði skila sér að lokum til neytenda með einum eða öðru hætti. Afar mikilvægt er að við búum við sambærilegt rekstrarumhverfi og samanburðaríki okkar. Í því sambandi má benda á að kostnaður fjármálafyrirtækjanna sjálfra lendir með einum eða öðrum hætti á viðskiptavinum þeirra. Með því að aflétta kostnaði skapast svigrúm t.d. að lækka vexti, fjárfesta í tæknilausnum eða greiða út meiri arð til eigenda bankanna, sem eru að langstærstum hluta íslenskum almenningur í gegnum lífeyrissjóði sem og eignarhlut ríkisins í Landsbanka og Íslandsbanka.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.