Umræðan

Árið sem hófst og lauk

Benedikt S. Benediktsson skrifar

Þetta er ár þverstæða. Ár umbrota og óvissu en endar mögulega sem ár dálítillar upprisu. Stöðugleiki er ekki fyrsta orðið sem manni dettur í hug til að lýsa árinu en þó voru þræðir jafnvægis í ýmsu tilliti undirliggjandi. Tækifærin hljóta að liggja í framtíðinni. Að minnsta kosti leyfir fólk sér að vonast eftir því. Líkast til geta aðildarfyrirtæki SVÞ ágætlega við unað, að minnsta kosti á heildina litið.

Við upphaf árs voru komin fram merki þess að verðbólga væri tekin að hjaðna. Stýrivextir voru þó enn háir og hið sama átti við útlánavexti fjármálastofnana. Verðbólguvæntingar gáfu enn ekki tilefni til nægilegrar bjartsýni og margir lýstu áhyggjum af stöðu heimila með óverðtryggð húsnæðislán. Húsnæðismarkaðurinn var í dálitlu uppnámi. Eldsumbrot á Reykjanesi höfðu nýlega bæst við og augu ríkisstjórnarinnar voru á þeim vanda sem við blasti. Í því ljósi gætti töluverðrar varfærni, bæði í áætlanagerð og fjárfestingum atvinnurekenda. Til allrar lukku tókust viðunandi kjarasamningar til lengri tíma á almennum markaði.

Það sem gerðist

Útlit er fyrir að velta í ýmsum greinum sem telja má einkennandi fyrir samsetningu aðildarfyrirtæki SVÞ muni vaxa nokkuð milli ára en nái þó ekki að fylgja verðlagsþróun. Þjónustustarfsemi virðist hafa vaxið ágætlega en verslun aðeins síður, a.m.k. framan af árinu. Verslunin er þó blómleg um þessar mundir. Sparnaður heimila virðist hafa farið vaxandi, væntanlega á kostnað einkaneyslu, en íslenski neytandinn er þó þrautseigur. Gera verður ráð fyrir að rekstrarhagræðing hafi verið mörgum atvinnurekandanum ofarlega í huga á árinu.

Alþingi og afurðastöðvar í kjötiðnaði fengu sinn skell, bæði í almennri umræðu og lagalegu samhengi, en á vettvangi samtakanna hafa áhyggjur ríkt af stöðu verslunar og neytenda í ljósi aukins afls afurðastöðva utan ákvæða samkeppnislaga.

Nokkur atriði voru hvað helst áberandi á vettvangi SVÞ á árinu. Áform um auknar beinar og óbeinar álögur á umferð, ökutæki og fleiri tæki voru kynnt og rædd allt þar til störfum Alþingis var frestað í nóvember. Þar voru bæði á ferðinni innleiðing Evrópuregluverks og heimasmíð. Úr varð um 59% hækkun kolefnisgjalds sem gæti leitt til nokkurrar hækkunar eldsneytiverðs og rekstrarkostnaðar eftir áramótin. Á sama tíma gætti óstöðugleika með tilliti til áherslna stjórnvalda á orkuskipti og hækkandi raforkuverð hjálpar ekki til.

Samkeppnishæfni og verðmætasköpun fyrirtækja fengu loks þá athygli sem þau verðskulda en bæði innanlands og á vettvangi ESB er rætt hvort of langt hafi verið gengið við setningu reglna og kvaða. Ljóst er að þar er verk að vinna. Alþingi og afurðastöðvar í kjötiðnaði fengu sinn skell, bæði í almennri umræðu og lagalegu samhengi, en á vettvangi samtakanna hafa áhyggjur ríkt af stöðu verslunar og neytenda í ljósi aukins afls afurðastöðva utan ákvæða samkeppnislaga. Heilbrigðisþjónusta óháð rekstrarformi fékk ákveðna uppreisn og hið sama má að vissu leyti segja um menntun barna. Sprotar breytinga í greiðsluþjónustu komu fram og vekja ástæðu til bjartsýni. Hins vegar var þrengt að leigusölum á íbúðamarkaði. 

Þjófnaðir í verslunum komust í hámæli á sama tíma og fréttir bárust af vexti skipulagðrar glæpastarfsemi. Í einhverju tilliti tók að gæta tilhneigingar stofnana til að innhýsa áður aðkeypta þjónustu. Löngu ríkisstjórnarsamstarfi var slitið eftir kraftlítinn seinni hálfleik sem framkallaði misvísandi skilaboð. En jólin komu snemma í verslun sem stóð hátt við undirleik spennandi Alþingiskosninga en án hefðbundins slagverks þingfrestunar.

Verslunin er þó blómleg um þessar mundir. Sparnaður heimila virðist hafa farið vaxandi, væntanlega á kostnað einkaneyslu, en íslenski neytandinn er þó þrautseigur.

Andrés Magnússon lét af störfum sem framkvæmdastjóri SVÞ á árinu, það eru sannarlega tímamót og eiga samtökin honum margt að þakka.

Vissa fæst með breytingum

Á mörgum sviðum ríkir trú á árið sem fram undan er. Flestir gera sér þó grein fyrir að það verður ekki án áskorana. Vöxtur erlendrar netverslunar var töluverður og íslensk verslun stendur frammi fyrir vaxandi alþjóðlegri samkeppni á netinu. Neytendur hafa í ríkum mæli tileinkað sér netverslun. Samkeppni mun aukast og því er mikilvægt að huga að því að tryggja keppendum jafnan leikvöll. Aukin sjálfvirknivæðing og hagnýting gervigreindar kalla á starfsfólk með nýja þekkingu og endurmenntun þeirra sem fyrir eru. Vonir standa til að rekstur fyrirtækja í þjónustu haldi áfram að vaxa en á þeim vettvangi munu bæði nútíminn og framtíðin einnig skapa áskoranir.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.






×