Sport

Anníe Mist, Katrín Tanja og Sara verða saman í liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir hafa allar komist á verðlaunapall á heimsleikunum.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir hafa allar komist á verðlaunapall á heimsleikunum. Vísir/eyþór

Draumur margra verður að veruleika í næsta mánuði þegar þrjár öflugustu CrossFit konur Íslandssögunnar taka höndum saman og keppa í sama liði á stóru CrossFit móti.

Anníe Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Sara Sigmundsdóttir hafa ákveðið að tefla fram liði á TYR Wodapalooza mótinu í næsta mánuði.

Þessar þrjár komu dóttur nafninu á CrossFit kortið á sínum tíma og þær ætla nú að taka síðasta dansinn saman.

Anníe, Katrín og Sara þekkja það vel að keppa á Wodapalooza mótinu en bara í einstaklingskeppninni. Nú keppa þær saman í liði í fyrsta sinn.

Anníe Mist og Katrín Tanja hafa báðar orðið tvisvar heimsmeistarar í CrossFit og Sara komst einnig tvisvar á verðlaunapall heimsleikanna. Lengi voru þær allar í úrvalshópi bestu CrossFit kvenna heims.

TYR Wodapalooza mótið fer fram á Miami Beach frá 23. til 26. janúar 2025.

Anníe Mist mun þarna snúa til baka eftir að hún varð móðir í annað skiptið og Katrín Tanja er að koma til baka eftir bakmeiðsli sem héldu henni frá keppni á stærstum hluta síðasta tímabils. Sara er einnig að koma til baka eftir langa glímu sína við hnémeiðsli.

Katrín Tanja hafði áður tilkynnt að hún væri hætt að keppa í CrossFit en Katrín ákvað greinilega að taka eina keppni í viðbót til að loka hringnum með íslenskum vinkonum sínum.

Anníe Mist grínaðist með það í athugasemdum við formlega tilkynningu Wodapalooza að hún þyrfti nú að taka sig í gegn en hún eignaðist sitt annað barn, Atlas Týr Ægidius Frederiksson, í lok apríl síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×