Enski boltinn

Mætir Arsenal næst og kallar eftir skýrum reglum í horn­spyrnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fabian Hurzeler hefur áhyggjur af þeirri þróun sem hann sér í hornspyrnum í ensku úrvalsdeildinni.
Fabian Hurzeler hefur áhyggjur af þeirri þróun sem hann sér í hornspyrnum í ensku úrvalsdeildinni. Robin Jones - AFC Bournemouth/AFC Bournemouth via Getty Images

Fabian Huerzeler, þjálfari Brighton í ensku úrvalsdeildinni, segir skýrari reglur verða að vera settur í hornspyrnum. Fótboltinn sé annars í hættu á að breytast í allt öðruvísi íþrótt. Lið hans mætir Arsenal í næsta leik.

Huerzeler lét ummælin falla eftir að vítaspyrna var dæmd á Brighton, fyrir brot í teignum eftir að Aston Villa tók hornspyrnu. Hann vildi meina að brotið hafi verið á markmanni Brighton áður.

„Þú getur alveg gefið vítaspyrnu fyrir þetta, en þú getur ekki hundsað brotið sem á sér stað á Bart [Verbruggen, markverði]. Ef þetta heldur svona áfram, hverja einustu helgi, þar sem markmaður er hindraður, og enska úrvalsdeildin setur ekki skýrar reglur, mun fótboltinn breytast í allt öðruvísi íþrótt,“ sagði Huerzeler og vísaði þá til aðferðar sem mörg lið reyna að beita þessa dagana, að setja upp hindrunarveggi svo varnarmenn og markmaður séu ekki frjálsir ferða sinna í vítateignum.

Arsenal er það lið sem hefur útfært aðferðina best og skorað flest mörk úr hornspyrnum af öllum liðum deildarinnar.

„Vanalega, þegar leikmaður án boltans er hindraður, er dæmt brot. Ég skil ekki af hverju það er öðruvísi eftir fyrirgjöf úr hornspyrnu,“ hélt Huerzeler áfram. Hann verður í banni þegar Brighton mætir Arsenal í næsta leik, vegna uppsafnaðra gulra spjalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×