Sport

Munar meira en fimm­tíu milljónum á tapi og sigri í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael van Gerwen og Luke Littler spila um heimsmeistaratitilinn í kvöld.
Michael van Gerwen og Luke Littler spila um heimsmeistaratitilinn í kvöld. Getty/Stu Forster

Spennan magnast fyrir úrslitaleik táningsins Luke Littler og margfalda meistarans Michael van Gerwen. Þeir spila um heimsmeistaratitilinn í pílukasti í Ally Pally í kvöld.

Littler er aðeins sautján ára gamall og er kominn í úrslitaleikinn annað árið í röð. Hann tapaði úrslitaleiknum í fyrra en með sigri yrði hann yngsti heimsmeistari sögunnar.

Hollendingurinn Van Gerwen getur á móti unnið sinn fjórða heimsmeistaratitil en hann vann síðast árið 2019. Van Gerwen vann líka 2014 og 2017.

Michael van Gerwen er 35 ára gamall og var sautján ára þegar Littler kom í heiminn í janúar 2007. Hann tók þátt í fyrsta heimsmeistaramóti sínu árið eftir.

Það er mikill munur á verðlaunafénu hjá heimsmeistaranum og hjá þeim sem endar í öðru sætinu.

Sigvegarinn í kvöld tryggir sér fimm hundruð þúsund pund í verðlaunafé eða um 87 milljónir íslenskra króna.

Sá sem tapar úrslitaleiknum verður að sætta sig við að fá tvö hundruð þúsund pund eða tæpar 35 milljónir króna.

Það munar því meira en fimmtíu milljónum króna á tapi og sigri í kvöld.

Útsendingin á Vodafone Sport hefst klukkan 19.55 í kvöld. Það verður einnig fylgst með úrslitaleiknum í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×