Miami Heat greinir frá þessu í yfirlýsingu þar sem segir að Butler sé kominn í sjö leikja bann vegna atvika þar sem hann hafi hegðað sér með skaðlegum hætti gagnvart liðinu á þessari leiktíð, sérstaklega á allra síðustu vikum.
Butler hafi með hegðun sinni og ummælum sýnt að hann vilji ekki lengur tilheyra Miami Heat, og komið þeim skilaboðum áleiðis að hann vilji fá fram skipti. Þess vegna sé félagið tilbúið að hlusta á tilboð.
Butler, sem getur reyndar áfrýjað banninu, verður af 336.543 Bandaríkjadölum fyrir hvern leik, eða alls 2.355.798 dölum vegna leikjanna sjö. Þessi heildarupphæð nemur um 330 milljónum króna.
Through his actions and statements, he has shown he no longer wants to be part of this team. Jimmy Butler and his representative have indicated that they wish to be traded, therefore, we will listen to offers.
— Miami HEAT (@MiamiHEAT) January 4, 2025
Næsti leikur Miami er við Utah Jazz í dag og liðið fer svo í ferðalag og spilar útileiki við Sacramento, Golden State, Utah, Portland, LA Clippers og LA Lakers.
Næsti leikur eftir sjö leikja bannið er heimaleikur við Denver Nuggets 17. janúar en allt útlit er fyrir að Butler hafi nú þegar spilað sinn síðasta leik í búningi Miami.
Hlutirnir hafa því breyst frá því fyrir viku síðan þegar Pat Riley, forseti Miami Heat, sagði að félagið myndi ekki skipta Butler út. Þolinmæði manna virðist einfaldlega á þrotum.
Butler skoraði níu stig þegar Miami tapaði 128-115 fyrir Indiana Pacers á fimmtudagskvöld, og sat á bekknum allan fjórða leikhluta rétt eins og í sigri gegn New Orleans Pelicans kvöldið áður.