Körfubolti

Cavs vann upp­gjör toppliðanna í NBA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jarrett Allen og Donovan Mitchell fagna eftir sigur Cleveland Cavaliers á Oklahoma City Thunder.
Jarrett Allen og Donovan Mitchell fagna eftir sigur Cleveland Cavaliers á Oklahoma City Thunder. getty/Jason Miller

Cleveland Cavaliers stöðvaði sigurgöngu Oklahoma City Thunder þegar tvö efstu lið NBA-deildarinnar í körfubolta mættust í nótt. Cavs vann leikinn, 129-122.

Fyrir viðureignina í nótt hafði OKC unnið fimmtán leiki í röð sem er met hjá félaginu. Sigurgöngunni lauk hins vegar þegar liðið sótti Cavs heim.

Stóru strákarnir hjá Cleveland, Jarrett Allen og Evan Mobley, voru í miklum ham í nótt. Allen skoraði 25 stig, tók ellefu fráköst og gaf sex stoðsendingar á meðan Mobley var með 21 stig, tíu fráköst og sjö stoðsendingar.

Cavs hefur núna unnið ellefu leiki í röð og er á toppi Austurdeildarinnar með 32 sigra og aðeins fjögur töp. OKC er á toppnum vestan megin með þrjátíu sigra og sex töp.

Leikurinn í nótt var gríðarlega spennandi en til marks um það skiptust liðin þrjátíu sinnum á forystunni og átta sinnum var staðan jöfn. En heimamenn reyndust sterkari undir lokin.

„Þetta sýnir þroska okkar. Eftir leikinn sagði ég við alla að við hefðum ekki unnið þennan leik fyrir ári. Allir sem komu inn á gerðu eitthvað jákvætt til að hafa áhrif á leikinn, hvort sem það var að skora, frákasta eða verjast. Þetta var liðssigur og það er það sem við þurfum,“ sagði Donovan Mitchell, leikmaður Cleveland, eftir leikinn.

„Þetta var stór sigur. Við erum allir spenntir. Þetta var bara einn leikur og titilinn vannst ekki í kvöld en við getum verið stoltir af þessu.“

Shai Gilgeous-Alexander, aðalstjarna Oklahoma, skoraði 31 stig í nótt og Jalen Williams var með 25 stig og níu fráköst. Isiah Hartenstein skilaði átján stigum, ellefu fráköstum og átta stoðsendingum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×