Körfubolti

Þjálfari Lakers missti heimili sitt: „Mörg ár síðan ég hef grátið svona mikið“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
J.J. Reddick og fjölskylda hans tapaði öllum sínum eigum í brunanum i Los Angeles.
J.J. Reddick og fjölskylda hans tapaði öllum sínum eigum í brunanum i Los Angeles. Getty/Sean Gardner

JJ Redick, þjálfari NBA liðsins Los Angeles Lakers, er einn af þeim sem misstu heimili sín í eldunum í Los Angeles.

Tíu þúsund hús hafa brunnið í eldunum sem hafa geysað á mörgum stöðum í borginni.

Redick staðfesti það á blaðamannafundi að húsið hans hafi fuðrað upp og fjölskyldan hafi misst allt sitt.

„Það eru mörg ár síðan ég hef grátið svona mikið. Allt sem skipti okkur einhverju máli er farið,“ sagði JJ Redick eftir æfingu Los Angeles Lakers. CNN segir frá.

Leikjum Los Angeles Lakers liðsins hefur verið frestað vegna ástandsins í borginni.

„Ég var ekki tilbúinn fyrir það sem ég sá. Á leiðinni upp að húsinu okkur þá sá ég að allt hverfið var brunnið. Við leigðum okkur hús hér á meðan við leituðum að húsi en allar okkar eigur voru í þessu húsi. Eftir tuttugu ár saman og tíu ár sem foreldrar þá var allt okkar í þessu húsi,“ sagði Redick.

„Sumt getum við aldrei bætt eins og teikningar sonar míns og minningar af tíma okkar saman,“ sagði Redick.

Fjölskylda Redick slapp ómeidd úr eldunum en að minnsta kosti ellefu hafa farist í eldunum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×