Viðskipti innlent

Ríkið greiði of mikið fyrir aðkeypta þjónustu og vörur

Lovísa Arnardóttir skrifar
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur boðað aukið hagræði í ríkisrekstri.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur boðað aukið hagræði í ríkisrekstri. Vísir/Vilhelm

Mikill meirihluti sérfræðinga hjá ríkinu sjá tækifæri til hagræðingar á sínum vinnustað.  Flestir sjá tækifæri til hagræðingar í tæknivæðingu eða nútímaferlum. Þá segja mörg að ríkið greiði of mikið fyrir vörur og þjónustu og að aðkeypt þjónusta sé algeng þó að það megi nýta mannauð innanhúss. Þetta kemur fram í könnun sem stéttarfélagið Viska framkvæmdi meðal félagsfólks sem eru sérfræðingar hjá ríkinu. 

Af þeim 85 prósentum sem sjá svigrúm, telja 60 prósent svigrúmið vera frekar eða mjög lítið og 24 prósent meta það sem frekar eða mjög mikið. 86 prósent eru hlynnt áformum um aukið hagræði í ríkisrekstri. 

Meirihluti segir óhagræði hafa aukist frá því sem áður var. Ekki er þó tilgreint frá því hvenær.Viska

Starfsfólk upplifir að ekki sé hlustað á þeirra sjónarmið, þrátt fyrir dýrmæta innsýn í starfsemi stofnana. Þetta er meðal þess sem lesa má úr könnun meðal félagsfólks Visku stéttarfélags sem fór fram í upphafi janúar. Alls svöruðu um 400 sérfræðingar hjá ríkinu könnuninni.

Samráð skorti sárlega

Í tilkynningu segir að svör bendi til þess að starfsfólk sjái mörg tækifæri en samráð skorti sárlega:

„Ég tel að það séu víða tækifæri til að fara betur með fé án þess að það komi niður á þjónustu eða starfsfólki...“ bendir einn á. Annar segir samtal og langtímasýn skorta: „Stjórnvöld virðast ekki alltaf vita hvaða starfsemi á sér stað á stofnun.. raunverulegt samtal sparar mikla fjármuni“ og „verkefnið verður ekki leyst á einni nóttu en það eru tækifæri til langtímasparnaðar“.

Flestir opinberir starfsmenn sem tóku þátt eru hlynntir auknu hagræði í ríkisrekstri.Viska

Í tilkynningu um greiningu Visku segir að flatur og ómarkviss niðurskurður hafi leitt til þess að álag er við þolmörk á mörgum stofnunum. Starfsfólk á mörgum stofnunum hefur þannig áhyggjur af auknu álagi ef stjórnvöld forgangsraða ekki þeim hagræðingaraðgerðum sem þau ætla í.

Þá kemur fram í greiningunni að aðeins 41 prósent telji að óhagræði hafi minnkað á síðustu árum þrátt fyrir fjölmörg tækifæri. Það bendi til þess að verulega hafi skort á samráð. Kallað er eftir skýrri sýn og auknu samráði við starfsfólk stofnana ríkisins um leiðir til úrbóta.

Flestir sjá tækifæri til hagræðingar í tæknilausnum eða verkferlum. Fæstir í starfsmannahaldi.Viska

Í greiningu Visku kemur fram að flestir sjái tækifæri til hagræðingar í tæknivæðingu og nútímaferlum, eða alls 56 prósent. Þá sjá 34 til 35 prósent tækifæri í innkaupum og öðrum rekstrarkostnaði. Minni möguleikar eru taldir í húsnæðismálum en þar sjá 31 prósent þó tækifæti til hagræðingar og í starfsmannahaldi en þar sjá 24 prósent tækifæri til hagræðingar.

Þörf á nýráðningum, ekki aðkeyptri þjónustu

Í tilkynningu segir að í svörunum megi lesa að samhliða því að álag og undirmönnun hafi stóraukist og það hafi skapast þörf fyrir nýráðningar á stofnunum.

„Sumar stofnanir hafa þurft að fylgja nokkurra prósenta hagræðingarkröfu um árabil sem komið hefur sterkt fram í auknu álagi á starfsfólk og frestun nauðsynlegra verkefna…mikill spekileki hefur skapast“.

Flestir sjá eitthvað svigrúm en meirihluti frekar eða mjög lítið. 24 prósent sjá þó tækifæri fyrir mjög eða frekar mikið hagræði í rekstri.Viska

Þá kemur einnig fram í greiningu Visku að úrelt tækni kalli á brýnar úrbætur eins og tveir svarendur lýsa því: „Kerfin sem ríkið er að nota eru afar óhagkvæm“… „Gamlar tæknilausnir valda því að pappírsstimplanir og músaklikk eru fleiri en þurfa þyrfti. Það kostar að breyta en ávinningurinn mikill til lengri tíma litið.“

Ríkið er þá sagt greiða of mikið fyrir vörur og þjónustu: „… söluaðilar eru sammála um að það gildi oft á tíðum hærri verð (í innkaupum) en (lægsta verð) á einkamarkaði“. Mörg segja þá aðkeypta þjónustu algenga jafnvel þótt hægt sé að nýta mannauð innanhúss. Oft sé verið að reiða sig á aðkeypta sérfræðinga með tugþúsunda tímagjald að óþörfu


Tengdar fréttir

Metfjöldi sparnaðarráða til nýrrar ríkisstjórnar

Sparnaðarráðum rignir inn í Samráðsgátt stjórnvalda eftir að forsætisráðherra kallaði í dag eftir tillögum frá almenningi, fyrirtækjum og hagsmunaaðilar um hvar og hvernig megi hagræða í rekstri ríkisins. Forsætisráðherra býst við mörgum gagnlegum ábendingum enda hafi hún góða reynslu af slíku samráði.

Kristrún aug­lýsir eftir sparnaðarráðum

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra lætur hendur standa fram úr ermum strax á nýju ári. Nú var að detta inn á samráðsgátt stjórnvalda nýtt mál þar sem auglýst er eftir umsögnum um það hvernig hagræða megi í rekstri ríkisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×