Innlent

Margrét Gauja tekur við Lýðskólanum á Flat­eyri

Jón Þór Stefánsson skrifar
Margrét Gauja Magnúsdóttir er nýr skólastjóri Lýðskólans á Flateyri.
Margrét Gauja Magnúsdóttir er nýr skólastjóri Lýðskólans á Flateyri.

Margrét Gauja Magnúsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Lýðskólans á Flateyri. Hún tekur við af Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, fráfarandi skólastjóra, sem tók við starfi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar um áramótin.

Þetta kemur fram í tilkynningu, en þar segir að Margrét Gauja sé með BA-prófi frá Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræðum með atvinnulífsfræði sem aukagrein. Þá hafi hún lokið kennsluréttindanámi frá sama skóla. Þá er hún er með meistarapróf í Forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og stundar diplómanám við HÍ í fjölbreytileika og farsæld. 

Margrét Gauja var bæjarfulltrúi í Hafnarfirði í tólf ár og var meðal annars formaður Íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðarbæjar, formaður Umhverfis- og framkvæmdarráðs, stjórnarformaður Sorpu bs. og forseti bæjarstjórnar. Einnig er Margrét með jöklaleiðsöguréttindi, meirapróf og er athafnastjóri hjá Siðmennt.

Lýðskólinn er á Flateyri

„Um leið og við þökkum Sigríði Júlíu, fráfarandi skólastjóra, fyrir frábært starf í þágu skólans undanfarin ár erum við glöð og ánægð með að fá Margréti Gauju til liðs við okkur,“ er haft eftir Runólfi Ágústssyni, formanni stjórnar skólans. 

„Magga Gauja er með víðtæka reynslu af starfi með ungu fólki, menntun þeirra og þjálfun og hefur í sínum störfum sýnt að hún er skapandi leiðtogi sem er annt um fólk og velferð þess. Þeir eiginleikar og sú reynsla mun reynast henni dýrmætt veganesti.“

Þá er haft eftir Margréti Gauju að hún sé spennt störf við Lýðskólann.

„Lýðskólar eru nauðsynleg viðbót við íslenskt menntakerfi því sú þekking, reynsla og valdefling sem ungt fólk fær á Flateyri, fylgir þeim út lífið og það er heiður að fá að taka þátt í þeirri vegferð, með þeim“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×