Innlent

Undir­búa verkföll: „Þetta er ömur­leg staða að svona skuli standa“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Guðjón Hreinn Hauksson er formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðjón Hreinn Hauksson er formaður Félags framhaldsskólakennara. FF

Algjör pattstaða er uppi í kjaraviðræðum framhaldskólakennara við ríkið að sögn formanns Félags framhaldsskólakennara. Félagið hefur hafið undirbúning að verkfallsaðgerðum sem formaðurinn vonar þó að ekki þurfi að grípa til. Að svo stöddu fæst ekki gefið upp í hvaða framhaldsskólum verkföll koma til greina. Þeir verða þó fleiri en í síðustu aðgerðum og ná til nokkur hundruð kennara.

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að samtalið sé enn virkt í kjaraviðræðum sambandsins við samninganefnd sveitarfélaga hvað lítur að grunn- og leikskólakennurum. „Það voru þreifingar í morgun og verður fundur á morgun með KÍ og sveitarfélögum hjá sáttasemjara,“ segir Magnús en fundað var einnig í gær.

„Það skiptir bara mjög miklu máli að allir einhendi sér í verkefnið og reyni að finna alla fleti sem mögulega eru til staðar,“ segir Magnús.

Samninganefnd ríkisins skorti umboð

Á meðan fundir hafa farið fram í vikunni í viðræðum samninganefndar Kennarasambandsins við sveitarfélög er lítill sem enginn gangur í viðræðum við ríkið hvað snýr að framhaldsskólum. Guðjón Hreinn Hauksson, formaður félags framhaldsskólakennara, hefur áhyggjur af stöðunni.

„Nú stendur yfir hlé í viðræðum síðan fyrir um viku síðan þegar sáttasemjari ákvað það að betra væri að aðilar stigu aðeins upp og hugsuðu málin. Það hefur verið bara pattstaða og mér sýnist í rauninni aðal ástæðan fyrir þessari pattstöðu er bara sú að samninganefnd ríkisins virðist ekki hafa umboð frá sínum yfirboðurum til að semja við kennara sem er mjög leitt,“ segir Guðjón.

Frá fundi túnaðarmanna Félags framhaldsskólakennara í gær.Félag framhaldsskólakennara

Þetta þyki honum leitt en hann kveðst vona að ný ríkisstjórn leggi sitt af mörkum til að leysa deiluna. „Það fólk sem núna ræður í ríkisstjórn Íslands það var mjög opinskátt um stuðning við deilu kennara og að ætla sér að leysa deiluna. Við höfum ekki fengið neinn ádrátt um þetta í þessu hléi sem er vont. Það er patt, við erum að reyna að tala við fólk um nauðsyn þess að semja og það að við viljum alls ekki fara að grípa til einhverra endurtekinna aðgerða. Þetta var nógu leiðinlegt fyrir áramótin en vont ef að við þurfum að fara að grípa til þessara aðgerða aftur,“ segir Guðjón.

Sjá að óbreyttu fram á langvinna baráttu

Hann segir að ríkur vilji sé til staðar af hálfu kennara til þess að semja. Trúnaðarmenn félagsins funduðu í gær en Guðjón segir að kollegum hans sé brugðið yfir stöðunni.

„Þess vegna var í rauninni ákveðið að við skyldum undirbúa okkur vegna þess að friðarskylda sem hefur verið í gangi í þessa tvo mánuði, desember og janúar, henni lýkur náttúrlega 1. febrúar og það er þá vilji okkar í félaginu að vera vel undirbúin þá og geta keyrt hratt af stað aðgerðir í allmörgum skólum,“ segir Guðjón.

Guðjón segir að kennurum sé brugðið yfir þeirri stöðu sem uppi er í kjaradeilunni við ríkið.Félag framhaldsskólakennara

Hann kveðst ekki geta sagt til um hvaða skólar yrðu undir í slíkum aðgerðum. Ekki er verið að hugsa um allsherjarverkfall eins og staðan er núna.

„En hins vegar yrðu þetta dálítið auknar aðgerðir frá því sem var fyrir áramótin, nokkur hundruð kennarar víða um land. En við viljum ekki gefa upp nöfn þessara skóla fyrr en að atkvæðagreiðslum er í rauninni bara lokið og eins viljum við ekki gefa upp ákveðinn fjölda akkúrat núna, þetta er bara í vinnslu eins og staðan er,“ segir Guðjón.

„Þetta er ömurleg staða að svona skuli standa núna en við sjáum bara ekkert annað í stöðunni heldur en að undirbúa okkur fyrir ennþá langvinnari baráttu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×