Fótbolti

Stein­þögðu og sköpuðu skrýtið andrúms­loft á San Siro

Sindri Sverrisson skrifar
Tijjani Reijnders fagnar jöfnunarmarki sínu í uppbótartíma en þá var enn tími fyrir AC Milan til að skora sigurmark.
Tijjani Reijnders fagnar jöfnunarmarki sínu í uppbótartíma en þá var enn tími fyrir AC Milan til að skora sigurmark. Getty

Stuðningsmenn ítalska stórveldisins AC Milan eru hundóánægðir með bandaríska eigandann Gerry Cardinale og beittu nýrri aðferð til að láta óánægju sína í ljós í dag, í heimaleik gegn Parma. Þeir ættu hins vegar að geta glaðst yfir úrslitum leiksins.

Heitustu stuðningsmenn Milan, eða Milan ultras, ákváðu að steinþegja á leiknum í dag til að mótmæla eignarhaldi Cardinale. Þess vegna heyrðist aðeins ómurinn af stuðningssöngvum þeirra sem fylgt höfðu Parma á leikinn, í frekar undarlegu andrúmslofti á San Siro samkvæmt ítölskum miðlum.

Hvort þessi hegðun stuðningsmanna hafði einhver áhrif á leikinn er óvíst en honum lauk með hádramatískum 3-2 sigri Milan.

Parma komst yfir í tvígang, með mörkum frá Matteo Cancellieri og Enrico Delprato. Christian Pulisic, landi eigandans Cardinale, jafnaði í 1-1 úr vítaspyrnu á 38. mínútu en Parma komst í 2-1 þegar tíu mínútur voru eftir. 

Tvö mörk frá Milan í uppbótartíma

Stuðningsmenn Milan klöppuðu þá í kaldhæðni fyrir eigendum félagsins en enn átti nóg eftir að gerast. Strahinja Pavlovic virtist hafa jafnað metin á 88. mínútu, en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Í staðinn náði Tijjani Reijnders að jafna eftir stungusendingu í uppbótartíma, og enn var tími til stefnu fyrir sigurmark.

Parma sendi marga menn fram og var nálægt því að skora en í staðinn brunuðu heimamenn fram í skyndisókn og Samuel Chukwueze náði að koma boltanum í netið og tryggja Milan 3-2 sigur, fyrir framan Kyle Walker sem var áhorfandi á leiknum í dag eftir komuna frá Manchester City.

Eftir sigurinn er Milan með 34 stig í 6. sæti deildarinnar en Parma er í 16. sæti með 20 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×