Eftir stundina sögulegu í upphafsleik Lakers á tímabilinu, þar sem Bronny lék með föður sínum, LeBron James, hefur hann verið notaður sparlega og aðallega leikið með G-deildarliðinu South Bay Lakers.
Bronny fékk hins vegar tækifæri gegn Sixers í nótt og lék í fimmtán mínútur. Hann verður ekki sakaður um að hafa nýtt þær vel en öll fimm skot hans geiguðu og hann tapaði boltanum þrisvar sinnum. Þá var Bronny í vandræðum í vörninni.
„Kannski setti ég hann í erfiða stöðu,“ sagði Redick eftir leikinn sem Lakers tapaði, 118-104. „Að fljúga hingað í gær, sjónvarpsleikur í Philly og allt það. Hann spilaði ekki vel en hefur spilað frábærlega í G-deildinni.“
JJ Redick says he played Bronny in the 1st quarter hoping he'd bring the team "energy"
— Bleacher Report (@BleacherReport) January 29, 2025
"He didn't play well, but he's been playing great in the stay-ready games and in the [G League]. I have confidence in him." pic.twitter.com/SNk4G5swIa
Bronny hafði verið að spila með South Bay Lakers áður en Redick kallaði í hann fyrir leikinn gegn Sixers.
„Mér fannst bara þegar það voru tveir leikir í röð að hann gæti fært okkur orku. Það var markmiðið. Ég hef trú á honum en augljóslega sýndi hann það ekki á þessu getustigi.“
Eftir leikinn viðurkenndi Bronny að það hefði komið honum á óvart þegar Redick hóaði í hann.
„Það kom upp úr þurru svo ég reyndi bara að vera tilbúinn að spila,“ sagði Bronny sem Lakers valdi með 55. valrétti í nýliðvali NBA síðasta sumar.
LeBron var atkvæðamestur Lakers-manna í tapinu í nótt. Hann skoraði 31 stig, tók átta fráköst og gaf níu stoðsendingar. Hann hitti úr tíu af sextán skotum sínum.