Innlent

Ó­breytt staða í Karp­húsinu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari gat ekki sagt til um hvort hann væri bjartsýnn.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari gat ekki sagt til um hvort hann væri bjartsýnn. Vísir/Vilhelm

Samninganefndir Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa fundað í Karphúsinu frá klukkan tíu í morgun. Enn rofar ekkert til og staðan er óbreytt að sögn ríkissáttasemjara.

„Ég veit ekkert um það,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari inntur eftir því hvort hann trúi því að samningar náist í dag.

Komist samninganefndirnar ekki að samkomulagi í dag hefjast verkföll í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum víðs vegar um landið, sum tímabundin önnur ekki. Ástráður segir að staðan breytist verulega þegar verkföll eru skollin á og segist ekki vita hvenær standi til að boða deiluaðila aftur á fund.

„Fólk sem er í verkfalli má ekkert vera að því að vera á samningsfundum,“ segir hann.

Hugarástand deiluaðila breytist þegar aðgerðir hefjast, segir hann.

„Það er ekki heppilegt þegar maður er að stofna hjónaband að vera í slagsmálum,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×