Ofurskálin er árviss viðburður en um er að ræða úrslitaleik í NFL deildinni í Bandaríkjunum og eru það stórliðin Philadelphia Eagles og Kansas City Chiefs sem mætast. Viðburðurinn fer fram annan sunnudag hvers febrúarmánaðar og troða áhorfendur þá í sig kjúklingavængjum, snakki og öðru góðgæti, vaka fram á nótt og fylgjast með íburðarmiklum auglýsingum og skemmtiatriðum á skjánum.
Auglýsingarnar sem sýndar eru fyrir leik og í hálfleik vekja alltaf mikla athygli og kostar auglýsingaplássið skildinginn enda dreifingin mikil.
Öll pláss seldust upp
Í ár þurfa auglýsendur að greiða tæpan milljarð íslenskra króna vilji þeir fá birtingu fyrir þrjátíu sekúndna pláss á skjánum. Verðið hefur þó ekki fælt fyrirtæki frá en öll auglýsingaplássin seldust upp í nóvember og eru Google, Doritos og Booking á meðal auglýsenda.
Bandaríski rapparinn Kendrick Lamar mun troða upp í hálfleik en ár hvert keppast þeir tónlistarmenn sem treyst er fyrir verkefninu við að toppa frammistöðu síðasta árs með íburðarmikilli sýningu.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur boðað komu sína á leikinn í kvöld og verður þar með fyrsti sitjandi forseti landsins sem mætir á Ofurskálina.