Enski boltinn

Armstrong til Man United frá PSG

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Armstrong er á leið til Manchester.
Armstrong er á leið til Manchester. Jean Catuffe/Getty Images

Marc Armstrong mun á næstu vikum ganga til liðs við Manchester United sem viðskiptafulltrúi enska knattspyrnufélagsins. Hann kemur frá París Saint-Germain þar sem hann var í svipuðu hlutverki.

Það hefur verið nóg um að vera hjá Man United á leiktíðinni. Gengi karlaliðs félagsins hefur verið hörmulegt en kvennaliðið hefur haldið merkjum félagsins á lofti og er í toppbaráttu þó erfitt sé að toppa margfalt meistaralið Chelsea.

Þá hefur Sir Jim Ratcliffe, minnihlutaeigandi félagsins, gert fjöldann allan af breytingum á starfsliði félagsins. Ratcliffle hikar ekki við að gera breytingar telji hann þær hjálpa félaginu þó þær séu umdeildar. Einna umdeildust til þessa var ráðning og stuttu síðar brottrekstur Dan Ashworth.

Ratcliffe vonast til að Armstrong, sem fæddur er á Englandi, endist lengur í starfi en hann hefur stýrt fjármálastefnu PSG frá árinu 2022. Armstrong mun nú færa sig yfir til Manchester og talið er að hann hefji störf hjá félaginu hvað á hverju.

Armstrong mun vinna undir Omar Berrada, sem kom til félagsins frá Manchester City síðasta sumar. Markmið með ráðningu Armstrong er að auka tekjur þó svo að félagið sé að skera niður á ýmsum sviðum.

Armstrong hefur einnig unnið fyrir enska knattspyrnu sambandið sem og NBA-deildina í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×