Martin var í viðtali við RÚV eftir leik og var spurður að því hvernig líðanin væri eftir leik. Ísland gerði það sem það gat til að koma muninum undir fjögur stigin en hafði ekki tímann til þess.
„Ég er bara svekktur. Það er samt svo erfitt að rýna í þetta strax eftir leik. Það voru miklar tilfinningar fyrir leik, á meðan leik stóð og svo núna strax eftir leik. Þetta var smá kinnhestur en sem betur fer var þetta ekki upp á að komast inn á Eurobasket. Það er einn leikur eftir og það er gott að vita af því. Við vorum ekki tilbúnir í þetta ungverska lið.“
„Það skipti eiginlega ekki neinu máli hver var að skjóta fyrir þá. Þeir bara hittu. Þeir voru bara frábærir í dag og gerðu okkur erfitt fyrir. Við fórum út úr því sem við höfum verið að gera hingað til og allt í einu hættum við að taka skot sem voru opin. Menn hikandi og hræddir og á útivelli máttu ekki vera hikandi og hræddur.“
Var eitthvað sem kom íslenska liðinu á óvart hjá Ungverjunum?
„Í sjálfu sér ekki. Þetta voru eiginlega bara 2-3 leikmenn sem sáu um þetta hjá þeim. Við náðum svo að ýta þeim út úr þessu í seinni hálfleik. Það skipti samt ekki máli, þeir bara hittu, þeir voru nánast að kasta boltanum aftur fyrir sig og hittu. Þá er lítið annað að gera en að taka í höndina á þeim og óska þeim til hamingju. Við förum bara Krýsuvíkurleiðina að þessu. Það verður bara skemmtilegra að tryggja þetta fyrir fullri höll.“
Martin fór yfir það að leikmenn þyrftu að ná sér eftir þennan leik og að það væri ekkert mál þar sem þeir væru á góðu hóteli. Hann brýndi samt bæði liðið og áhangendur liðsins.
„Það sem skiptir máli er að vera jákvæðir. Þetta er ekki heimsendir. Það er fullt af körfubolta eftir, þeir eiga eftir að fara til Ítalíu og við eigum eftir að spila við Tyrki heima. Við sýndum það í fyrsta glugganum að við getum spilað á móti Tyrklandi og unnið þá. Það væri ógeðslega sætt að vinna þá fyrir framan fulla höll og opna kampavín inn í klefa.“