Bíó og sjónvarp

Bezos bolar Broccoli burt frá Bond

Samúel Karl Ólason skrifar
Síðasta myndin um James Bond var sýnd árið 2021 og var það síðasta mynd Daniel Craig í hlutverkinu. Deilur milli Amazon og Broccoli fjölskyldunnar hafa komið niður á tilraunum til að framleiða nýja kvikmynd.
Síðasta myndin um James Bond var sýnd árið 2021 og var það síðasta mynd Daniel Craig í hlutverkinu. Deilur milli Amazon og Broccoli fjölskyldunnar hafa komið niður á tilraunum til að framleiða nýja kvikmynd. AP/Michael Sohn

Fjölskyldan sem stýrt hefur sögunum um James Bond, ofurnjósnarann heimsfræga, hefur stigið til hliðar. Amazon MGM Studios munu nú hafa fulla stjórn á njósnaranum en Barbara Broccoli og Michael G. Wilson, höfðu staðið í vegi fyrirtækisins varðandi nýjar kvikmyndir og þætti úr söguheimi Bonds.

Forsvarsmenn Amazon, sem er í eigu auðjöfursins Jeffs Bezos, keyptu kvikmyndaver og kvikmynda- og þáttasafn fyrirtækisins MGM dýrum dómi árið 2022 og fylgdi með sýningarrétturinn á kvikmyndum um James Bond. Broccoli fjölskyldan stýrði þó áfram sögunum um Bond í gegnum framleiðslufélagið Eon.

Sjá einnig: Amazon kaupir MGM og James Bond

Barbara Broccoli erfði Bond-ólina, ef svo má segja, af Albert föður sínum en hann hafði þá í um þrjá áratugi stýrt því hvenær framleiðsla á nýrri mynd um Bond gat hafist. Broccoli og stjúpbróðir hennar, Wilson Michael Wilson, hafa haldið saman í ólina undanfarin ár en Barbara hefur tekið frekar við stjórninni að undanförnu en Wilson er 82 ára gamall og hún 64 ára.

Síðan kaupin gengu í gegn og Amazon MGM Studios var stofnað hafa stjórnendur fyrirtækisins deilt við Broccoli fjölskylduna ogo þá sérstaklega Barböru um ýmis verkefni í söguheimi Bonds.

Hún hefur í raun stýrt handriti mynda um Bond, ráðningu leikara og öðrum mikilvægum liðum. Broccoli hefur haft stjórn á því hver fær að leika Bond næst.

Broccoli hefur lýst forsvarsmönnum Amazon sem fávitum og hefur ekki treyst þeim til að gera Bond nægilega góð skil.

Variety sagði frá því í gær að bæði Broccoli og Wilson hefðu ákveðið að stíga til hliðar og Bond-ólin yrði færð í hendur stjórnenda Amazon, eftir að þau náðu samkomulagi sín á milli. Ekki hefur komið í ljós hvað samkomulagið felur í sér.

Í yfirlýsingu frá þeim segja þau Broccoli og Wilson að Amazon sé treystandi fyrir njósnaranum og að þau muni nú snúa sér að öðrum verkefnum.

Síðasta kvikmyndin um Bond var No Time to Die og kom hún út árið 2021. Það var síðasta myndin með Daniel Craig í hlutverki njósnarans en ekkert virðist hafa gengið að finna nýjan leikara í hlutverkið og hafa engar upplýsingar um nýja mynd litið dagsins ljós síðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.