Körfubolti

Luka Doncic lík­lega á leið til Ís­lands í sumar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Luka Doncic varð Evrópumeistari með Slóveníu árið 2017.
Luka Doncic varð Evrópumeistari með Slóveníu árið 2017. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

NBA stórstjarnan Luka Dončić og félagar í slóvenska körfuboltalandsliðinu munu líklega spila æfingaleik gegn Íslandi í sumar, ef liðin dragast ekki saman í riðil á Evrópumótinu.

Slóvenska körfuknattleikssambandið er búið að gera óformlegt samkomulag við KKÍ um að landsliðin spili æfingaleik fyrir Evrópumótið sem fer fram í haust.

„Slóvenía lofaði okkur því síðasta sumar, að þeir myndu koma hingað í æfingaleik ef við kæmumst á EM, og taka Luka Dončić með sér“ sagði landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen eftir að Ísland tryggði sér sæti á EM í gærkvöldi.

„Það er ekkert staðfest enn þá og margt sem á eftir að koma í ljós en þeir töluðu um þetta. 

Það væri risastórt að spila við þá. En það veltur líka á því með hverjum við verðum í riðli. Ef við lendum með Slóveníu í riðli er ekki sniðugt að spila æfingaleik við þá líka.“

Dregið verður í riðla þann 27. mars næstkomandi, svo hefst undirbúningurinn.

„Við þurfum bara að bíða og sjá, en það verða einhverjir æfingaleikir“ sagði Craig að lokum.


Tengdar fréttir

„Þetta er stærra en að vinna einhverja titla“

„Þetta er það sem þú lifir fyrir. Ástæðan fyrir því að þú ert í þessu. [Komast inn á EM] með mörgum af mínum bestu vinum, fyrir framan ættingja og vini. Ég mun lifa á þessu restina af ævinni, og við allir“ sagði Martin Hermannsson, stigahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í sigri gegn Tyrklandi sem tryggði Íslandi sæti á EM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×