Enski boltinn

Mateta líður vel þrátt fyrir tæk­lingu í and­litið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mateta liggur óvígur eftir.
Mateta liggur óvígur eftir. Glyn KIRK / AFP

Jean-Philippe Mateta, framherji Crystal Palace, er á batavegi eftir að enda upp á spítala eftir stórundarlega tæklingu markvarðarins Liam Roberts þegar Palace lagði Millwall í enska bikarnum í dag. Tæklingin hefði getað stórslasað framherjann og jafnvel endað feril hans.

Myndir og myndbönd segja meira en 1000 orð en tæklingin var ein sú fólskulegasta sem sést hefur í langan tíma. Upphaflega ætlaði Michael Oliver dómari ekki að dæma neitt en myndbandsdómari leiksins benti honum á að um fólskulegt brot væri að ræða og Roberts ætti að fara í sturtu hið snarasta.

Atvikið átti sér stað á 8. mínútu leiksins sem Palace vann á endanum 3-1. Mateta lá óvígur eftir í þónokkrar mínútur áður en hann var borinn af velli. Þessi 27 ára gamli framherji hefur nú tjáð sig á samfélagsmiðlum.

„Mér líður vel. Ég vonast til að snúa aftur sem fyrst, sterkari en áður. Vel gert strákar að klára dæmið.“

Mateta mun þurfa að gangast undir aðgerð á eyra eftir tæklinguna. Oliver Glasner, þjálfari Palace, sagði að tæklingin hefði getað endað feril Mateta á meðan Alex Neil, þjálfari Milwall, sagði Roberts ekki hafa ætlað sér að meiða framherjann.

Mateta hefur verið sjóðheitur að undanförnu og skorað átta mörk í síðustu átta deildarleikjum sínum. Alls hefur hann skorað 15 mörk í 33 leikjum á leiktíðinni en það verður nú eitthvað í að hann geti spilað á ný.

Palace er komið í 8-liða úrslit ensku bikarkeppninnar ásamt Manchester City, Aston Villa, Preston North End og Bournemouth. Á morgun kemur í ljós hvaða þrjú lið tryggja sér einnig sæti í pottinum sem dregið verður úr annað kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×