Innlent

Blóðug slags­mál tveggja lands­fundar­gesta

Jakob Bjarnar skrifar
Hermann Nökkvi (th) lét ekki Þorleif komast upp með neitt múður og heilsaði honum að sjómannasið. Þeir gerð svo upp málin í Herragarðinum daginn eftir og eru, að sögn Þorleifs, mestu mátar eftir atvikið.
Hermann Nökkvi (th) lét ekki Þorleif komast upp með neitt múður og heilsaði honum að sjómannasið. Þeir gerð svo upp málin í Herragarðinum daginn eftir og eru, að sögn Þorleifs, mestu mátar eftir atvikið. vísir

Í kekki kastaðist milli tveggja landsfundargesta Sjálfstæðisflokksins á Pedersen-svítunni á föstudagskvöldinu. Þá gerði Hermann Nökkvi Gunnarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu sér lítið fyrir og rétti Þorleifi Hallbirni Ingólfssyni einn á lúðurinn.

Greinilegt er að talsvert meiri hiti var meðal landsfundagesta en komið hefur fram. Ekki fór formannskjörið eins drengilega fram og látið hefur verið í veðri vaka. 

Heilsað að sjómannasið

Hermann Nökkvi var stuðningsmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur, sem hafði sigur í formannsslag og voru þeir Þorleifur, sem er varaformaður Félags Ungra Sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ, að ræða þær Guðrúnu og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur mótframbjóðanda hennar. Þorleifur studdi Áslaugu.

Þær samræður voru allt annað en vinsamlegar. Þorleifur talaði þar fjálglega um að Hermann hafi verið undirróðursmaður fyrir Guðrúnu og skipti þá engum togum, Hermann Nökkvi heilsaði Þorleifi að sjómannasið.

Keypti skyrtu á Þorleif næsta dag

Þorleifur telur þetta ekki fréttaefni, þeir hafi verið mátar fyrir og eftir. En mönnum hafi orðið heitt í hamsi á þessu augnabliki.

Þeir gerðu þessar væringar upp á laugardaginn en þá fóru þeir tveir í Herragarðinn og keypti Hermann Nökkvi nýja skyrtu á Þorleif.

„Ég vildi ekki þurfa að mæta í rúllukragapeysu á Landsfundinn. Þetta er gæðavandamál hjá okkur og ekkert stórmál. Við Vestfirðingar getum nú tekið á móti einhverjum höggum. En það eru allir léttir og við fengum okkur bjór saman og skáluðum,“ sagði Þorleifur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×