Körfubolti

Kyrie Irving skoraði með slitið krossband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving heldur um hnéð eftir að hann sleit krossband í leik Dallas Mavericks á móti Sacramento Kings.
Kyrie Irving heldur um hnéð eftir að hann sleit krossband í leik Dallas Mavericks á móti Sacramento Kings. AP/Tony Gutierrez

Bandaríski körfuboltamaðurinn Kyrie Irving spilar ekki meira með Dallas Mavericks liðinu á þessu tímabili í NBA deildinni í körfubolta.

Í ljós er komið að Irving sleit krossband í leik Dallas og Sacramento Kings á mánudagskvöldið. Niðurstöður úr myndatökum voru gerðar opinberar í dag.

Irving meiddist í lok fyrsta leikhluta. Hann harkaði af sér og skoraði úr tveimur vítaskotum áður en hann fór haltandi af velli.

Þetta er mikið áfall fyrir Dallas en Irving er öðrum fremur besti leikmaður félagsins eftir að það lét Luka Doncic fara til Los Angeles Lakers.

Hann var valinn í stjörnuleikinn í níunda skiptið í febrúar. Hann er með 24,7 stig, 4,8 fráköst og 4,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur.

Irving hefur spilað 39,3 mínútur í leik síðan að Doncic fór til Lakers. Enginn leikmaður spilaði fleiri mínútur að meðaltali í NBA deildinni frá 4. febrúar til 2. mars. Liðið fékk Anthony Davis í skiptunum en hann meiddist strax í fyrsta leik.

Um leið og Dallas missir Irving líka er nánast hægt að afskrifa það að félagið komist í úrslitakeppnina í ár og það sést líka á veðbönkum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×