Fótbolti

Slot þakkar hrósið en segir Real Madrid enn best

Sindri Sverrisson skrifar
Arne Slot og hans menn eiga fyrir höndum afar krefjandi verkefni í París í kvöld.
Arne Slot og hans menn eiga fyrir höndum afar krefjandi verkefni í París í kvöld. Getty/Antonio Borga

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, vill ekki ganga svo langt að segja að lið sitt sé það besta í Evrópu eins og Luis Enrique, stjóri PSG, talaði um í aðdraganda stórleiks liðanna í kvöld.

Fyrri leikur PSG og Liverpool er í kvöld klukkan 20, í París, og verður hann sýndur á Stöð 2 Sport 2. Sigurliðið í einvíginu kemst áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Liverpool, sem þykir líklegast til að vinna keppnina, byrjar því á afar stórri hindrun þrátt fyrir að hafa unnið deildarkeppni Meistaradeildarinnar með sannfærandi hætti.

Liverpool er einnig með gott forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og full ástæða fyrir Enrique til að tala vel um liðið.

„Liverpool hefur verið eitt besta lið Evrópu á síðustu árum. Það var erfitt að bæta það sem Jürgen Klopp gerði en Arne Slot hefur tekist að búa til nánast fullkomið lið,“ sagði Enrique.

Slot var spurður út í þessi ummæli á blaðamannafundi fyrir einvígið og sagði ljóst að Liverpool þyrfti að lyfta bikarnum, í sjöunda sinn í sögu félagsins, til að geta kallað sig það besta í Evrópu.

„Það er gott að fá svona hrós en besta liðið í Evrópu þarf að vinna Meistaradeild Evrópu. Við erum langt frá því og byrjum á afar erfiðum leik, og svo öllum erfiðu leikjunum sem á eftir fylgja,“ sagði Slot.

„Ég tel að á þessu augnabliki sé Real Madrid enn besta lið Evrópu, því þeir unnu keppnina á síðustu leiktíð. Aðrir geta sagt eitthvað annað en hvað okkur varðar þá þarf fyrst að vinna keppnina til að geta fullyrt eitthvað svona,“ sagði Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×