Lakers tapaði leiknum í nótt, 111-108. LeBron James var fjarri góðu gamni vegna meiðsla og sömu sögu var að segja af Jaxson Hayes, Rui Hachimura og Dorian Finney-Smith. Þrátt fyrir það sagði Redick að Lakers ætti sér engar málsbætur fyrir frammistöðuna gegn Nets.
„Þótt okkur hafi vantað leikmenn er það ekki afsökun fyrir því hvernig við spiluðum körfubolta,“ sagði Redick.
„Hugarfarið var bara að stytta sér leið í kvöld. Viltu vera gott lið? Viltu vinna í NBA? Þú verður að gera erfiðu hlutina. Við gátum ekki sent boltann á milli okkar. Við komumst ekki inn í sóknina. Já, það endar með töpuðum bolta. Ég veit ekki hvað við vorum að gera.“
Luka Doncic, sem var með þrefalda tvennu í leiknum, tók gagnrýni Redicks til sín.
„Það sem JJ sagði um samskiptin í leiknum var mikilvægt. Það var mín sök og við hefðum átt að gera betur á því sviði,“ sagði Doncic sem skoraði 22 stig, tók tólf fráköst og gaf tólf stoðsendingar. Hann hitti hins vegar aðeins úr átta af 26 skotum sínum og tapaði boltanum fimm sinnum.
Eftir átta sigra í röð hefur Lakers nú tapað tveimur síðustu leikjum sínum. Liðið er í 3. sæti Vesturdeildarinnar með fjörutíu sigra og 23 töp.