Körfubolti

Stjörnukonur björguðu tíma­bilinu með frá­bærum seinni hálf­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Denia Davis-Stewart var mjög öflug í leiknum í kvöld.
Denia Davis-Stewart var mjög öflug í leiknum í kvöld. Vísir/Diego

Aþena hefur verið að bíta frá sér síðan að liðið féll úr Bónus deild kvenna í körfubolta á dögunum en þrátt fyrir góða stöðu í hálfleik þá réðu Aþenukonur ekki við Stjörnukonur þegar á reyndi í kvöld.

Stjarnan vann þá lífsnauðsynlegan sigur í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Stjarnan komst í mun betri mál með sigrinum en spennan verður mikil í lokaumferðinni. Fjögur lið eru að berjast um þrjú sæti í úrslitakeppninni.

Stjarnan vann leikinn að lokum með þrettán stigum, 85-72.

Það var frábær seinni hálfleikur sem skilaði þessum mikilvæga sigri Stjörnukvenna og það má segja að þær hafi bjargað tímabilinu með frábærum seinni hálfleik.

Góður annar leikhluti skilaði Aþenuliðinu fimm stiga forystu í hálfleik, 40-35.

Stjörnuliðið sneri leiknum við með því að vinna þriðja leikhlutann 25-13 og landaði síðan sigrinum með sannfærandi hætti í fjórða leikhlutanum.

Denia Davis-Stewart var mjög öflug í liði Stjörnunnar með 29 stig og 18 fráköst en Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði 21 stig og stal 7 boltum. Ana Clara Paz var síðan með 15 stig og hin unga Berglind Katla Hlynsdóttir skoraði 10 stig..

Barbara Ola Zienieweska skoraði 15 stig fyrir Aþenu, Lynn Peters var með 11 stig og þær Violet Morrow og Ása Lind Wolfram skoruðu tíu stig hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×