Körfubolti

Lakers fékk skell í endur­komu LeBrons

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers áttu litla möguleika gegn Chicago Bulls.
LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers áttu litla möguleika gegn Chicago Bulls. ap/Wally Skalij

LeBron James sneri aftur eftir tveggja vikna fjarveru vegna meiðsla þegar Los Angeles Lakers fékk skell gegn Chicago Bulls, 115-146, á heimavelli í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Luka Doncic skoraði 34 stig fyrir Lakers, þar af 29 í fyrri hálfleik, og LeBron var með sautján en þeir gulu og fjólubláu áttu ekki mikla möguleika gegn Bulls.

Coby White skoraði 36 stig fyrir nautin og nýliðinn Matas Buzelis 31. Josh Giddey var nálægt því að ná ferfaldri tvennu. Hann skoraði fimmtán stig, tók tíu fráköst, gaf sautján stoðsendingar og stal boltanum átta sinnum.

Lakers er í 4. sæti Vesturdeildarinnar með 43 sigra og 27 töp. Liðið er aðeins þremur sigurleikjum á undan grönnum sínum í Los Angeles Clippers sem eru í 7. sæti. 

Liðin í sætum 7-10 fara í umspil um tvö sæti í úrslitakeppninni. Lakers hefur farið í umspilið þrjú af síðustu fjórum tímabilum.

Bulls er í 9. sætinu í Austurdeildinni með 31 sigur og fjörtíu töp. Liðið hefur unnið sjö af síðustu níu leikjum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×