Lífið

Ís­lenska ullin grunnurinn í hönnuninni

Lovísa Arnardóttir skrifar
Magnea fer yfir síðustu tólf árin í fyrirlestri á morgun. Þar ræðir hún íslensku ullina og hvað skilgreinir íslenska hönnun.
Magnea fer yfir síðustu tólf árin í fyrirlestri á morgun. Þar ræðir hún íslensku ullina og hvað skilgreinir íslenska hönnun. Dóra Dúna

Magnea Einarsdóttir hefur síðustu tólf árin hannað og framleitt vörur úr íslenskri ull. Hún hefur í tvígang sett í sölu kápulínur sem eru framleiddar úr íslenskri ull á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir að það skipti miklu máli að hægt sé að tryggja rekjanleika varanna. Á sama tíma segir hún það ekki skilgreina íslenska hönnun að hún sé framleidd hér.

Magnea mun annað kvöld fjalla um hönnunarferli sitt síðustu tólf árin á fyrirlestri í Listasafni Sigurjóns í Laugarnesi. Magnea útskrifaðist sem fatahönnuður með áherslu á prjón frá Central Saint Martins-listaháskólanum í London og lagði einnig stund á nám í fatahönnun við Parsons Paris School of Design. Hún starfar í Reykjavík og rekur þar fatamerkið MAGNEA með verslun við Hafnartorg í Reykjavík.

„Frá því að ég byrjaði hefur það verið rauður þráður í minni hönnun að vinna með íslenska ull og íslenskum framleiðendum,“ segir Magnea og heldur áfram:

„Ég hef verið að vinna með íslenskum framleiðendum í tólf ár núna og hef lært ótrúlega mikið í því ferli. Ég mun fara yfir þetta í bæði máli og myndum í fyrirlestrinum.“

Magnea segir ákvörðunina um að vinna með íslensku ullina marglaga. Hún hafi byrjað að vinna með hana í náminu í London og segist hafa verið forvitin þegar hún flutti heim um hvort og hvernig væri hægt að vinna frekar með hana.

Kápurnar eru úr íslenskri ull og eru framleiddar á höfuðborgarsvæðinu.Aðsend

Ómetanlegt aðgengi í verksmiðjuna

„Það var til dæmis ómetanlegt að vera með aðgengi að verksmiðjunni, hún liggur bara í næsta húsi,“ segir Magnes og á þá við verksmiðju Glófa sem var á þessum tíma í Kópavogi, svo Ármúla og núna í Garðabæ.

„Það er allt annað en að vinna með einhverjum sem er erlendis. Þá ertu að senda myndir á milli og færð ekki sömu snertingu.“

Innblásturinn kemur víða að. Aðsend

Til að byrja með var Magnea ekki með neina sérstaka hönnun í huga en þó skýra sýn um að vinna með ullina með hætti sem ekki hafði verið gert áður.

„Mig langaði að prófa að nota íslensku ullina sem grunn í því sem ég var að gera, listrænt til að byrja með, og prófa alls konar prjónahugmyndir sem ég var með og var búin að gera á litla prjónavél og hvernig væri að framleiða þær á stærri skala. Sumt endaði mjög vel og annað alls ekki. Þetta er þannig búið að vera mikið lærdómsferli í hvað íslenska ull er hægt að nota og hvað er hægt að framleiða hér. Það eru alls ekki endalausir möguleikar.“

Í umræðu um íslenska hönnun og hvort hún sé framleidd hér sé það algert lykilatriði.

„Mér finnst það ekki endilega skipta öllu máli að hún sé framleidd hér, því möguleikarnir eru svo takmarkaðir hvað hægt er að gera hér. Þannig að skilgreiningin getur ekki tekið mið af því að hún sé framleidd hér. Það er frábært að nýta það sem er og það er önnur umræða hvort það væri hægt að auka tæknimöguleikana hér í framleiðslu en það er ekki staðan í dag.“

Á kynningu kápulínu Magneu árið 2023.Aðsend

Sterkara efni sem hentar í yfirhafnir

Magnea hefur nýtt það sem til er og þróað vörulínur innan sinnar hönnunar á Íslandi.

„Mín niðurstaða eftir alls konar tilraunir er að nota íslensku ullina í yfirhafnir. Efnið er sterkara og þykkara heldur en það sem ég notaði til að byrja með. Ég hef því framleitt kápur úr íslenskri ull á Íslandi,“ segir Magnea sem hefur svo nýtt önnur efni til að framleiða aðrar vörur í vörulínum sínum og framleitt það erlendis.

„Ég hef ekki sett mér skorður hvað það varðar.“

Kápurnar hafa verið partur af öllum línum sem hún hefur kynnt en auk þess hefur hún kynnt tvær sérstakar kápulínur frá árinu 2020 og meðal annars verið tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands og fengið umfjöllun í Vogue fyrir þær.

„Sú seinni er sú sem er fáanleg núna. Það hefur þannig ekki verið á hverju ári en ég hef gert meira úr því að kynna þær sérstaklega og þær fá svo að fljóta með og lifa lengur.“

Með kápunum vildi hún líka vekja athygli á virðiskeðjunni. Kápurnar eru framleiddar á höfuðborgarsvæðinu og hægt að rekja hvaðan ullin kemur og hvernig hún var framleidd

Hér rekur Rán Flygenring allt hönnunarferli kápanna. Rán Flygenring

Magnea segir þetta hafa skipt sig miklu máli þó svo að það geti kostað aðeins meira að framleiða vörurnar hér.

„Verð og gæði haldast ekki alltaf í hendur en gæðin felast ekki síst í upprunanum og kolefnisfótspori vörunnar. Það er svo margt sem þarf að taka til greina.“

Íslenska ullin grófari

Íslenska ullin er almennt grófari en önnur ull segir Magnes. Það megi rekja til þess að ullin komi af kindinni sem er mikið úti og lifir og hrærist í íslenskri náttúru og veðurfari.

„Það er það sem gerir hana einstaka á sama tíma. Ég hef unnið með erlendum fyrirtækjum og erlendum framleiðendum og þekki mjög vel úrvalið af garni og ull annars staðar frá. Íslenska ullin er mjög ólík því sem maður sér erlendis. Ég hef prufað mínar hugmyndir í alls konar efnivið og framleiðslum og það er ekkert alveg það sama, bæði hvað varðar ullina og framleiðsluaðferðina.“

Frá kind og í hönnun. Aðsend

Til dæmis sá aðeins á Íslandi hægt að prjóna efni, klippa það út og sauma það saman

„Í rauninni vill prjón ekki láta klippa sig út og sauma sig saman. Prjón vill vera prjónað og þau sem prjóna í höndunum vita að þau taka ekki upp saumavélina og klippa. Það raknar bara upp. Það stoppar líka þennan teygjanleika sem prjónið á að standa fyrir. Mér hefur þannig ekki þótt ganga að gera peysu eða annað sem maður vill hafa teygjanlegt, djúsí og kósí. Efnið sem ég nota í kápurnar er stíft og næstum eins og það sé ofið. Fólk veit oft ekki þegar það sér kápurnar hvort þær eru ofnar eða prjónaðar og mér finnst mjög gaman að útskýra það fyrir fólki.“

Þannig hafi hún í kápunum fundið leið til að láta notkun efniviðsins ganga upp án þess að ganga á teygjanleika ullarinnar.

„Þegar ég fór að framleiða kápurnar tók ég þannig ákvörðun um að hafa þær 100 prósent úr íslenskri ull. Ég fóðra þær ekki og nota ekki festingar annars staðar frá. Það er bara ullin og þær eru bundnar og aðeins öðruvísi en aðrar kápur. Ég vil leyfa þessari arfleifð og framleiðsluaðferð að njóta sín alveg í gegn í þessum kápum.“

Frá vinstri: Magnea Einarsdóttir, Brynhildur Pálsdóttir, Ýr Jóhannsdóttir, Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Andrea Fanney Jónsdóttir.Þórdís Reynis

Fyrirlesturinn er á morgun klukkan 20 í Listasafni Sigurjóns í Laugarnesi. Nánar hér. Fyrirlesturinn er hluti af Prjónavetri sem er röð stuttra sýninga og viðburða þar sem ljósi hefur verið varpað á prjónahönnun og stöðu íslensks prjónaiðnaðar. Áður hafa flutt erindi og haldið sýningu hönnuðirnir Andrea Fanney Jónsdóttir, Ýr Jóhannesdóttir, eða Ýrúrarí, og Brynhildur Pálsdóttir fyrir Vík Prjónsdóttir.

Saman halda þær svo sýningu á Hönnunarmars, á sama stað, þar sem sýndar verða prjónavörur sem hafa verið framleiddar á Íslandi síðustu 20 ár.


Tengdar fréttir

„Laugarnesið hafði mjög mikil áhrif á mig í uppvexti“

Andrea Fanney Jónsdóttir textílhönnuður og klæðskerameistari opnaði síðustu helgi listasýninguna För þar sem öll prjónaverkin eru innblásin af fuglalífi borgarinnar. Sýningin er hluti af Prjónavetri í Listasafni Sigurjóns í Laugarnesi og er sú fyrsta í röð stuttra sýn­inga og við­burða vet­ur­inn 2024 til 25, þar sem ljósi er varpað á prjóna­hönn­un og stöðu ís­lensks prjóna­iðn­að­ar.

Ramma­gerðin kaupir Glófa

Eigendur Rammagerðarinnar hafa keypt allt hlutafé ullarvöruframleiðandans Glófa ehf. Fyrirtækið var áður í eigu Páls Kr. Pálssonar og Helgu Lísu Þórðardóttur. Páll er einnig framkvæmdastjóri félagsins og mun hann halda starfi sínu þar áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.